Benedikt: „ágirnd vex með evru hverri“

„Ári fyrir hrun hitti ég einn arkitekta útrásarinnar, þekktan kaupahéðin. Hann sagði mér að margt væri einstætt við velgengni Íslendinga. Til dæmis væru fleiri ríkir einstaklingar á Íslandi en í Finnlandi. Mér fannst þetta merkilegt, en gat ekki á mér setið að spyrja hver væri ríkur í hans huga. Sjálfur hugsaði ég með mér að sá hlyti að eiga meira en 500 milljónir króna í augum alvöruburgeisa, kannski milljarð.“

Á þessum orðum hefur Benedikt Jóhannesson stofnandi Viðreisnar og stærðfræðingur pistil sinn í Morgunblaðinu í dag. Hann heldur áfram og spyr:

„Hvað finnst þér, lesandi góður? Hvað þarf maður að eiga mikla peninga til þess að vera ríkur?“

Nokkru áður en Benedikt hitti þennan umrædda mann var hann á flugstöðinni á leið til útlanda þegar hann sá stóran hóp mógúla sem allir tengdust einum stærsta auðhring landsins á þeim tíma.

„Drýgindalegur svipur þeirra bar með sér að nú væru stórtíðindi í aðsigi. Skömmu síðar fréttist að erindið var að kaupa prentsmiðju í Bretlandi fyrir rúmlega tíu milljarða króna. Þetta kom á óvart. Höfðu stjórnendur félags í fjölmiðlarekstri og fjarskiptum einhver not fyrir prentsmiðju eða vit á prentsmiðjurekstri í Bretlandi? Svarið var nei við báðum spurningum. Ástæðan fyrir kaupunum var að af prentsmiðjunni hafði verið mikil bókhaldsleg framlegð, góð EBIDTA sem kölluð er. Markmiðið var að hækka verð fyrirtækisins á markaði, en stundum eru félög verðmetin sem margfeldi af þessari framlegð,“ segir Benedikt.

SegirBenedikt þessi viðskipti hafa verið ein hin verstu af mörgum slæmum á þessum tíma og að öll fjárhæðin hafi tapast á innan við tveimur árum.

„Tímabundin velgengni fyllti stjórnendurna oflæti, þeir héldu að allt yrði að gulli sem þeir snertu. Og alltaf þurfti meira.“

Hvað veldur stjórnlausri ágirnd?

„Af hverju verða fyrirtæki sem hafa náð góðum árangri sífellt að víkka út, sölsa undir sig meira og meira, leita á ný mið? Vald spillir og auður villir. Ægivald gerspillir og ofurauður tryllir. Dómgreindin dofnar og ráðvendnin rýrnar. Ærlegir menn ærast. Öllu skal rutt úr vegi fyrir meiri völd og meira fé.“

Hallgrímur Pétursson orti:

Undirrót allra lasta ágirndin kölluð er.
Frómleika frá sér kasta fjárplógsmenn ágjarnir sem freklega elska féð.
Auði með okri safna, andlegri blessun hafna en setja sál í veð.

„Sagt er að lystarstolssjúklingum finnist þeir alltaf vera feitir. Auðmenn telja sig alltaf vanta meira fé. Víkingurinn sem ég sagði frá hugsaði sig um og svaraði – auðvitað í erlendri mynt: „Maður er ríkur, ef hann á hundrað milljónir evra.“ Um fjórtán milljarða króna. En er það nóg?“ Spyr Benedikt að lokum.