Ásmundur hissa, snortinn og hrærður: „ég og sigga erum óendanlega þakklát“

Viðar Guðjohnsen og Ólafur Hannesson, tveir Sjálfstæðismenn segja ákveðna fjölmiðla hafa staðið að pólitískri aðför að mannorði Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Skrifuðu þeir grein í Morgunblaðið til stuðnings þingmanninum og kveðst Ásmundur þakklátur fyrir stuðninginn. Það er Stundin sem vekur athygli á færslu Ásmundar.

Í grein Viðars og Ólafs segja þeir að settar hafi verið fram tilhæfulausar ásakanir, dylgjur og lygar í fjölmiðla um aksturskostnað Ásmundar. Þá vilja þeir að Ásmundur sé beðinn afsökunar. Í greininni segir:

„Stjórnmálamenn með sjálfstæðan vilja eru orðnir að pólitískum skotspónum umrótsafla sem veigra sér ekki við að ala á höfuðsyndum Biblíunnar með lygum, útúrsnúning og dylgjum í hugmyndafræðilegu stríði sínu.“

Hringbraut hefur áður fjallað um akstur Ásmundar. Í þeirri umfjöllun kom fram að Ásmundur hefur þegið um 25 milljónir frá Alþingi í endurgreiddan aksturskostnað síðan 2013, en þá settist hann fyrst á þing.

Ásmundur er eins og áður segir þakklátur fyrir stuðninginn sem hann fær í Morgunblaðinu. Þar segir Ásmundur:

„Ég viðurkenni að grein Ólafs Hannessonar frá Hrauni og Viðars Gudhjonsen í Morgunblaðinu í morgun snart okkur Siggu. Ómetanlegur stuðningur og uppörvun að fá þessi orð á blað frá jafn góðum drengjum. Greinin kom okkur skemmtilega á óvart en hugarfar greinahöfunda kemur mér ekki á óvart. ÉG og Sigga erum þeim óendanlega þakklát fyrir að setja þessa grein fram.“

Akstur Ásmundar

Ásmundur ók fyrir tæpar 3,2 milljónir árið 2013.

Mest keyrði hann árið 2014 og þá fékk hann um 5,4 milljónir frá Alþingi vegna nota á eigin bifreið.

Árið 2015 fékk hann örlítið minna eða um fimm milljónir.

Árið 2016 fékk hann tæpar 4,9 milljónir.

Árið 2017 hlaut hann 4,2 milljónir fyrir aksturinn og alls 4,6 milljónir vegna ferðalaga innanlands.

Árið 2018 notaði Ásmundur bílaleigubíl og fékk 1.166.050. Þá fékk hann 684.090 fyrir að nota eigin bíl og 633.073 krónur fóru í eldsneyti sem hann fær einnig endurgreitt.

Rukkaði fyrir að skutla starfsfólki ÍNN

DV greindi svo frá því að Ásmundur hefði endurgreitt Alþingi 178 þúsund krónur vegna aksturs síns frá árinu 2017 með tökufólki frá sjónvarpsstöðinni ÍNN. Þótti honum það orka tvímælis að blanda saman ferðum sínum um kjördæmið með tökufólkinu, en í lok Kastljósþáttar í byrjun árs heyrðist Ásmundur viðurkenna að hann hefði rukkað Alþingi fyrir þann akstur, þó svo ljóst væri að sú ferð væri ekki hluti af starfi hans sem þingmaður.