Áslaug arna segir þjóðkirkjuna geta sinnt öllum verkefnum þrátt fyrir fullkominn aðskilnað við ríkið

„Í mínum huga er ekki spurning um það að kirkjan getur vel sinnt öllum verkefnum sínum og þar á meðal sáluhjálp og margvíslegri félagslegri þjónustu óháð ríkinu. Ég er einnig þeirrar skoðunar að margir muni fylgja kirkjunni að málum þótt fullkominn aðskilnaður verði á endanum á milli hennar og ríkisvaldsins.“

Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra í grein í Morgunblaðinu í dag. Segir hún óhjákvæmilegt að stefna áfram á sömubraut í átt að fullum aðskilnaði ríkis og kirkju.

„Nýlegt samkomulag milli ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar felur í sér að hún verður ekki lengur eins og hver önnur ríkisstofnun. Hún mun fremur líkjast frjálsu trúfélagi sem ber ábyrgð á eigin rekstri og fjárhag. Þessar breytingar eru til mikilla bóta og óhjákvæmilegt að stefna áfram á sömu braut í átt að fullum aðskilnaði. Þangað til og þrátt fyrir samkomulagið mun þjóðkirkjan áfram njóta stuðnings og verndar íslenska ríkisins á grundvelli ákvæðis stjórnarskrárinnar.“

Þá segir Áslaug að sjálfstæð kirkja óháð ríkisvaldinu samrýmist betur trú- og skoðanafrelsi heldur en sérstaðan sem þjóðkirkjan hefur notið í íslenskri stjórnskipan. Kirkjan sé alltaf í smíðum en verði þá ávallt þjóðkirkja sama hver útkoman verður.

„Fleiri og fleiri aðhyllast þá skoðun að það sé ekki hlutverk ríkisins að fjármagna trúfélög. Hún verður að finna boðskap sínum réttan farveg og vera í góðum tengslum við þjóðina. Ef vel tekst til mun henni vegna vel. Ef kirkjan miðlar boðskap sem hefur vægi og þýðingu í aðstæðum hversdagsins og gagnvart álitamálum framtíðarinnar; ef fólkið ber traust til kirkjunnar og leitar til hennar í betri tíð og verri – þá verður kirkjan áfram þjóðkirkja hver svo sem laga- og stjórnskipunarleg staða hennar verður í framtíðinni.“