Andlát í krýsuvík: skilin eftir ein í óbyggðum og enginn á vakt – fá tugmilljónir frá ríkinu en ekkert eftirlit

Harmleikur átti sér stað nýverið á meðferðarheimilinu á Krýsuvík þegar ungur maður framdi þar sjálfsvíg. Hann tók eigið líf á sunnudegi en á helgum eru sjúklingarnir skildir eftir einir fjarri mannabyggðum og engin á vakt til að gæta þeirra. Ungi maðurinn hafði því ekki aðgang að neinum sérfræðingum til að tjá vanlíðan sína. Þá var andlátið sem átti sér stað á Krýsuvík, hvorki tilkynnt til Landlæknisembættisins, né Félagsmálaráðuneytisins sem á að hafa eftirlit með meðferðarstöðinni.

Árið 2016 fékk Krýsuvík falleinkunn hjá Landlækni, Var fyrirkomulagið harðlega gagnrýnt, að enginn starfsmaður væri á svæðinu eftir klukkan fjögur á daginn eða á helgum. Ekki var brugðist við alvarlegum athugasemdum og hefur enn ekki verið gert. Minnstu munaði að meðferðarstöðinni yrði lokað eftir að DV upplýsti á síðasta ári um ótal vankannta á meðferðarstarfinu og bruðl samtakanna með almannafé.

Meðferðarstöðin hefur verið á skilorði en átti að taka ákvörðun nú í október hvort Krýsuvík héldi áfram að fá árlega um 120 milljónir af almannafé eins og hefur verið síðustu ár. Meðferðarstöðin hýsir skjólstæðinga sem eru jafnan þeir sem hafa átt í hve mestum vandræðum með að fóta sig í samfélaginu og á öðrum meðferðarstofnunum.

Þá er ekkert eftirlit í dag með starfseminni, hvorki af hálfu Landlæknisembættisins né Félagsmálaráðuneytisins. Landlæknisembættið segir ástæðuna vera þá að þar starfar enginn heilbrigðisstarfsmaður og því ber embættinu ekki að hafa eftirlit með starfsemi Krýsuvíkur. Félagsmálaráðuneytið segir að það sé til skoðunar hver eigi að sinna eftirliti, þrátt fyrir að búið sé að skrifa undir samning um að veita Krýsuvík tugmilljónum króna frá ríkinu.

\"\"

Vistmenn komu að unga manninum

Ungi maðurinn sem lést hafði samkvæmt heimildum Hringbrautar nýlega snúið til baka úr bæjarleyfi. Voru það vistmenn sem komu að honum látnum. Samkvæmt heimildum Hringbrautar, höfðu þeir fyrst samband við dagskrárstjórann Jón Kristján Jacobsen, sem vill láta kalla sig Nonna lobó líkt og sjá má á Facebook-síðu hans, í stað þess að hafa samband við 112. Nonni lobó hefur samkvæmt heimildum Hringbrautar lagt mikla áherslu á ávalt skuli haft samband fyrst við hann, ef eitthvað kemur uppá í Krýsuvík.

DV fjallaði ítarlega um skelfilegt ástand á meðferðarheimilinu í Krýsuvík árið 2018. Þar var greint frá öðru andláti sem tengdist vistmanni en Jón Einar Randversson, lést degi eftir umdeilda brottvísun frá Krýsuvík. Þá var fjallað um óttastjórnun yfirmanna, starfsmaður kærður fyrir kynferðisbrot og yfirmaður átti í óviðeigandi samskiptum við kvenkyns skjólstæðinga.

Eftir umfjöllun DV fékk Krýsuvík skammtímasammning og ákveðið að tekin yrði ákvörðun nú í október um hvort gerður yrði áframhaldandi samningur.

Bæjarleyfi geta reynst lífshættuleg

Þeir sem þekkja vel til segja að bæjarleyfi geti  reynst sjúklingum ákaflega erfið. Leyfið er með þeim hætti að skjólstæðingar yfirgefa Krýsuvík á föstudegi og snúa til baka á laugardegi eða sunnudegi, allt eftir því hversu langan meðferðartíma þeir eiga að baki.

„Það er eiginlega furðulegt að harmleikur eins og þessi hafi ekki átt sér stað fyrr. Þessi leyfi geta verið mjög erfið og fólki liðið illa eftir þau. Það er erfitt þegar fólk er jafnvel fjölskyldulaust eða allir fullir í kring um þau. Þau koma inn í alls konar umhverfi og eru að stíga sín fyrstu spor. Þau þurfa jafnvel mestan stuðning eftir að hafa fengið leyfi, en þegar þau snúa aftur er enginn starfsmaður á svæðinu, enginn til að tala við, nema aðrir sem eru í meðferð og auðvitað eru þau í alls konar ástandi, þó þau reyni kannski að gera sitt besta.“

Ungi maðurinn hafði því engan starfsmann eða sérfræðing til að ræða vanlíðan sína og þá vissu yfirmenn ekki hvernig sálrænt ástand hans var vegna sömu ástæðu, það var engin til taks.

Annar heimildarmaður Hringbrautar segir að Nonni lobó hafi lagt þunga áherslu við starfsmenn og skjólstæðinga að ræða ekki við fjölmiðla eða gefa nokkrar upplýsingar um meðferðarstarfið. Þannig vildi stjórnarformaður Krýsuvíkursamtakanna, dagskrárstjóri og aðrir starfsmenn ekki einu sinni svara þeirri almennu spurningu, án tengsla við andlátið, hvort það væri starfandi vaktmaður á Krýsuvík.

DV greindi frá falleinkunn Landlæknis sem birt var í úttekt árið 2016. Þá upplýsti DV um það að Krýsuvíkursamtökunum hefði verið boðið að fá vaktmann að kostnaðarlausu. Því var hafnað.

Hringbraut óskaði eftir upplýsingum frá Landlækni hvort andlátið væri þar til skoðunar. Þá eins hvort Landlæknir hefði ýtt enn frekar á stjórn Krýsuvíkursamtakanna að laga þá vankanta sem áður hefur verið bent á. Þau svör fengust frá Landlæknisembættinu, eins og áður segir, að það væri hætt eftirliti með meðferðarstöðinni á Krýsuvík.

Þá er enginn starfsmaður á svæðinu sem býr yfir mikilli reynslu. Þannig er æðsti maður í húsinu, Nonni lobó, með um eins og hálfs árs starfsreynslu sem ráðgjafi. Hann var áður húsvörður í fimm ár. Hann stýrir nú meðferðarstöð en þangað sækir okkar veikasta fólk í von um að koma lífi sínu á réttan kjöl.

Einn heimildarmanna Hringbrautar segir um dagskrárstjórann Nonna lobó:

„Það er óskiljanlegt að Krýsuvík sé opinn. Þá er enn ótrúlegra að yfir staðnum sé maður með nánast enga reynslu né hæfileika titlaður dagskrárstjóri. Hann hefur unnið sem ráðgjafi í rúmt ár og er settur í þessa stöðu gagnvart vistmönnum og öðru starfsfólki. Það er fullkomlega ábyrgðarlaust.“

Enginn fylgist með starfseminni

Hringbraut hafði samband bæði við Landlæknisembættið og Félagsmálaráðuneytið til að fá upplýsingar um hver hefði eftirlit með starfseminni sem fer fram í Krýsuvík. Ekkert eftirlit er með starfseminni sem fer fram á Krýsuvík í dag.

Landlæknisembættið kveðst ekki vera með eftirlit með því hvað gerist á Krýsuvík þar sem þjónustan sem þar er veitt er ekki skilgreind sem heilbrigðisþjónusta. Ástæðan fyrir því er sú að enginn heilbrigðisstarfsmaður er starfandi á Krýsuvík. Benti Landlæknisembættið á Félagsmálaráðuneytið.

Hjá Félagsmálaráðuneytinu fengust þær upplýsingar að þar á bæ er ekkert fylgst með starfseminni. Samkvæmt heimildum Hringbrautar er enn verið að reyna ákveða hver eigi að sinna eftirliti með staðnum, þrátt fyrir að búið sé að skrifa undir samning um að veita Krýsuvík tugmilljónum króna frá ríkinu.

Andlátið sem átti sér stað á Krýsuvík var hvorki tilkynnt til Landlæknisembættisins, né Félagsmálaráðuneytisins.

Stjórnarmenn og starfsmenn neita að svara

Þá ræddi blaðamaður Hringbrautar við Ólaf Sveinsson, stjórnarformann Krýsuvíkursamtakanna. Hann neitaði einnig að tjá sig við málið. Hann vildi líkt og Nonni lobó, ekki svara hvort vaktmenn væru á svæðinu á kvöldin og um helgar.

„Ég vil ekki staðfesta eitt né neitt varðandi Krýsuvík,“ sagði Ólafur

Blm: Þú vilt ekki svara þeirri einföldu spurningu hvort það séu vaktmenn á svæðinu.

„Velferðareftirlitið fylgist með okkar starfi,“ svaraði Ólafur. Tekið skal fram að ekkert er til sem heitir velferðareftirlit.

Blm: Í skýrslu frá Landlækni hefur ítrekað verið bent og einblínt á að þið þurfið að hafa vaktmenn, þess vegna er ég að spyrja hvort þið hafið farið eftir þeim fyrirmælum Landlæknis, að hafa vaktmenn í ykkar starfsemi.

„Þó það hefðu verið hundrað vaktmenn, þá hefði það ekki komið í veg fyrir þennan atburð,“ svaraði Ólafur og bætti við: „Líklega ekki, nei. Ég vil ekki ræða þessi mál við þig.“

Nonni lobbó ósáttur

\"\"Hringbraut ræddi einnig við Nonna Lobó sem brást illa við símtali blaðamanns. Aðspurður hvort vaktmaður hefði verið á svæðinu eða þá hvort vaktmenn væru yfirhöfuð til taks, svaraði Nonni lobó orðrétt:

„Ég ætla ekki að tjá mig um þetta. Mér finnst bara svona general, skilurðu, breytir engu, hvað er eða hvernig, hvað, skilurðu. Það er eina sem ég get sagt bara, þú veist, þú veist, það bara breytir engu, skilurðu.“

Aðspurður hvort það hefði ekki breytt einhverju ef að vaktmaður hefði verið á svæðinu svaraði Nonni lobó:

„Það breytir engu. Maðurinn var látinn, skilurðu.“

Blm: Almennt, burtséð frá þessu atviki, þið eruð þá ekki með starfandi vaktmann á Krýsuvík?

Nonni lobó ítrekaði síðan margsinnis að hann vildi ekki ræða andlátið og harðneitaði að svara hvort vaktmaður væri til taks. Þegar honum var bent á að Landlæknir hefði ítrekað krafist úrbóta og blaðamaður vitnaði í úttekt frá árinu 2016 svaraði hann að nú væri árið 2019 og spurði síðan hvort það væri hans hlutverk að upplýsa um starfsemina í Krýsuvík. Þá bætti hann við að tímasetningin á símtalinu væri fáránleg. Blaðamaður spurði hvort hann vildi votta aðstandendum unga mannsins samúð vegna andlátsins, kvaðst hann aftur ekki vilja tjá sig um málið.

Úr umfjöllun DV frá árinu 2018:

DV fjallaði eins og áður segir ítarlega um alvarlegt ástand á Krýsuvík. Þar sagði:

Óttastjórnun, starfsmaður kærður fyrir alvarlegt kynferðisbrot, óviðeigandi samskipti yfirmanns við kvenkyns skjólstæðinga og andlát sem aldrei hefði átt að eiga sér stað. Þá höfðu yfirmenn á þeim tíma borgað hátt í tuttugu milljónir fyrir ökutæki fyrir þáverandi dagskrárstjóra, Þorgeir Ólason og móður hans Lovísu Christansen sem var framkvæmdastjóri. Þá var ákveðið að gera úttekt á Krýsuvík og skoða hvort ætti að halda áfram starfseminni.

 „Ég dey í kvöld,“ sagði ungur maður, Jón Einar Randversson, við vini sína og ráðgjafa meðferðarheimilisins þegar honum var vísað úr meðferð í byrjun október. Jón Einar hafði dvalið í níu vikur í Krýsuvík. Hann hafði ekki lokið meðferð sem tekur sex mánuði. Samkvæmt heimildum DV hafði Jón Einar staðið sig með miklum sóma og þótti starfsfólki og öðrum skjólstæðingum meðferðarheimilisins brottvísunin afar ósanngjörn. Daginn eftir var Jón Einar látinn.

Þá þótti stjórnun nokkurra helstu starfsmanna hafa verið mjög harðneskjuleg og ósanngjörn, bæði í garð skjólstæðinga og undirmanna. DV ræddi við ótal starfsmenn og skjólstæðinga vegna þeirra mála.

„Að mínu mati á að loka þessari stofnun,“ sagði fyrrverandi ráðgjafi sem starfaði hjá Krýsuvíkursamtökunum um hálfs árs skeið. Starfsmaðurinn sagðist hafa verulegar efasemdir um að þar innandyra væri unnið faglegt starf og að árangurinn, sem stjórnendur hreyktu sér af, væri í besta falli ýktur.

\"\"

Í umfjöllun DV kom einnig fram að Krýsuvíkursamtökunum var úthlutað 112 milljónum á seinustu fjárlögum. Rúmar níu milljónir fóru í glæsikerru fyrir Þorgeir á sama tíma og Sigurlína Davíðsdóttir, stjórnarformaður Krýsuvíkursamtakanna, kvartaði sáran undan hversu lítið fé samtökin höfðu á milli handanna. Starfsmenn voru furðu lostnir að svo dýr bíll væri keyptur fyrir peninga ríkisins fyrir jafnlítinn vinnustað. Aðrir starfsmenn heimilisins ferðuðust saman til Krýsuvíkur, í ódýrum skrjóðum. Þá  hafði DV heimildir fyrir því að fjárhagsstaða samtakanna hefði verið svo slæm að ekki voru keypt nagladekk undir bíl sem flytur starfsmenn milli staða. Á svipuðum tíma voru stærri dekk keypt undir lúxusbíl Þorgeirs fyrir um 300 þúsund krónur.

Þá kom ýmislegt athyglisvert í ljós þegar bílaviðskipti Krýsuvíkursamtakanna voru skoðuð. Þannig fjárfesti Lovísa Christiansen, móðir Þorgeirs, í glænýrri Skoda Octavia-bifreið fyrir sjálfa sig í nóvember 2012. Kaupverðið var 4,7 milljónir króna.

\"\"

Mæðginin höfðu því fengið tvo bíla að verðmæti 13,4 milljóna króna en Lovísa bjó í 300 metra frá starfsstöð sinni. Eftir umfjöllun DV var bíll Þorgeirs seldur. Í ársskýrslum kom fram að tæpar sjö milljónir fóru í rekstur á bifreiðum sem verður að teljast undarlegt þar sem kaup á eldsneyti voru ekki inni í þeirri tölu né kaup á bifreiðum eða akstur starfsfólks. Samtökin vildu ekki skýra þennan útgjaldalið þegar eftir því var óskað.

Þá varð starfsmaður uppvís að ástarsambandi við skjólstæðing. Hann var látinn fara tímabundið en ráðinn aftur. Kærði önnur kona hann fyrir gróft kynferðisbrot sem átti sér stað eftir endurráðninguna. Þá voru minnst tveir fyrrverandi starfsmenn sem áttu í kynferðislegu samneyti við skjólstæðinga.

Krýsuvík fékk falleinkunn hjá Landlækni 2016 og gerði alvarlegar athugasemdir sem ekki var brugðist við. Það virðist þó ekki hafa haft neinar afleiðingar gagnvart Landlækni eða velferðarráðuneytinu sem veitir heimilinu fjárframlög. Þvert á móti, því fjárframlögin jukust frá því úttektin var gerð. Þá kom fram að enginn starfsmaður væri á heimilinu eftir klukkan fjögur á daginn en það hefur verið harðlega gagnrýnt. Þá hefur enginn starfsmaður verið á vakt á helgum. Þessu hefur ekki verið breytt þrátt fyrir ábendingar Landlæknis né umfjöllun DV á sínum tíma. 

Fyrrverandi starfsmenn gagnrýndu jafnframt að klukkan fjögur yfirgefi starfsmenn meðferðarheimilið og skjólstæðingarnir séu þá einir á heimilinu.

„Það er algjört rugl. Þarna eru veikir einstaklingar í stífu prógrammi á skrifstofutíma en eru síðan eftirlitslausir utan hans. Maður getur rétt ímyndað sér hvað fer í gangi.“

Samkvæmt heimildum DV bauðst velferðarráðuneytið til þess að útvega vaktmann á kvöldin en stjórnendur vildu ekki þiggja það boð.

„Stjórnendur vilja ekki að utanaðkomandi einstaklingar fái innsýn inn í starfið,“ sagði einn af mörgum heimildarmönnum blaðsins.

Þorgeir Ólason, átti í óeðlilegum samskiptum við kvenkyns skjólstæðinga, jafnvel ástarsamböndum. Sigurlína Davíðsdóttir, stjórnarformaður samtakanna, staðfesti það. Þorgeir var vegna umfjöllunar DV sendur í tveggja mánaða leyfi og bjóst enginn starfsmaður við að hann myndi snúa aftur, enda stjórnun á staðnum í molum. Eftir að starfsmönnum var greint frá að hann væri á leið til starfa á ný skiluðu þrír starfsmenn inn uppsagnarbréfi, var það helmingur starfsmanna á meðferðarstöðinni. Hætt var við ráðninguna og síðar tók vinur Þorgeirs við, Nonni lobó. Hann vakti athygli fyrr á árinu þegar hann kom fram í fréttum sjónvarps.

Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl og lauk afplánun árið 2000. Hann starfaði síðar sem húsvörður á Krýsuvík. Hann hafði síðan verið ráðgjafi í rúmt ár þegar hann var gerður að framkvæmdastjóra.  

Stjórnarhættir Nonna lobó eru harðlega gagnrýndir af heimildarmönnum Hringbrautar.

Nánar verður fjallað um þær brotalamir sem eru í starfi meðferðarstöðvarinnar í Krýsuvík og stjórnarhætti yfirmanna í dag og á morgun á vef Hringbrautar.