Allt bendir til að grínisti verði kjörinn forseti

Forsetakosningar fóru fram í dag í Úkraínu og bendir allt til þess að grínistinn og gamanleikarinn Volodymyr Zelensky verði næsti forseti landsins. Útgönguspár benda sterklega til þess að hann muni sigra núverandi forseta landsins, Petró Porósjenkó, með allt að 70 prósent atkvæða. Volodymyr Zelensky er best þekktur fyrir leik sinn í úkraínsku sjónvarpsþáttaröðinni Servant of the people, en fyrirtæki í hans eigu framleiða einnig þættina. Þættirnir njóta gífurlegra vinsælda í landinu og eru meðal annars sýndir á Netflix. Í þáttunum leikur hann kennara sem óvænt verður forseti landsins.

Framboð hans var ekki tekið alvarlega í fyrstu og töldu stjórnmálaskýrendur að Volodymyr Zelensky væri eingöngu að taka þátt í kosningabaráttunni til að auglýsa sjónvarpsþáttinn sinn. En því lengra sem leið á kosningabaráttuna kom í ljós að ekki var um grín að ræða og jókst fylgi hans könnun eftir könnun. 

Núverandi forseti landsins, Petró Porósjenkó, hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki tekið harðar á þeirri gífurlegri spillingu sem er á landinu og hefur sú umræða valdið því að fylgi hans hefur hrunið undanfarnar vikur í könnunum. Gagnrýnendur Volodymyr Zelensky hafa þó bent á að hann sé enginn engill sjálfur og að það séu sterk tengsl á milli fyrirtækis hans og rússneskra auðkýfinga sem séu nátengdir Vladimar Pútin, forseta Rússlands.