Albert slasaðist alvarlega - Bergþór: Leynd hætta á götum borgarinnar - „Munum að þakka fyrir lífið!“

Albert slasaðist alvarlega - Bergþór: Leynd hætta á götum borgarinnar - „Munum að þakka fyrir lífið!“

Albert Eiríksson slasaðist alvarlega síðastliðinn föstudag á mótum Bústaðavegar og Sogavegar. Albert var á hjóli og á svæðinu var lausamöl með vikri. Albert missti stjórn á hjólinu þegar hann fór yfir mölina og steyptist á höfuðið. Hann er nú á batavegi. Nauðsynlegter að huga að fleiri svæðum vegna öryggis hjólreiðafólks, en lausamöl getur reynst hjólreiðafólki lífshættulegt. Bergþór Pálsson, sambýlismaður Alberts, segir á Facebook:

„Sem betur fer var hann með hjálm, sem verður víst ekki notaður aftur. Viðbeinið er hins vegar í þremur bitum, þarf víst að opna til að tjasla því saman, vonandi eftir helgi. Heilahristingur fylgdi, en gaurinn ber sig vel.“

Bergþór bendir síðan á að víða sé lausamöl á götum og gangstéttum sem getur skapað hættu fyrir hjólreiðafólk. Bergþór segir:

„ ... því að í þessum blettum getur falist leynd hætta, sem ekki allir átta sig á.“

Bergþór segir að Albert beri sig vel og bíði þolinmóður eftir að komast í skurðaðgerð til að koma viðbeininu, sem er í þremur hlutum, aftur saman. Bergþór heldur áfram:

„Helst væri samt óskandi að hjólreiðafólki yrði ekki lengur gert að komast leiðar sinnar á bílagötum (ræsum) og misjafnlega hornóttum gangstéttum, sem það á ekki samleið með, heldur gæti hjólað á þar til gerðum, aðskildum götum eins og í Danmörku, Þýskalandi og Hollandi svo dæmi séu nefnd.“

Bergþór segir: Á  myndinni er blettur sem reyndist Alberti mínum eins og svell (raunar var gert við daginn eftir)

Bergþór segir að margt hafi verið gert fyrir hjólreiðafólk en mikið verk sé óunnið.

„Þetta ætti að vera kappsmál fyrir þá sem verða að nota bíla. Umferðarhnútarnir eru að verða óþolandi. Því fleiri sem hjóla, því auðveldara verður að ferðast um á bíl. En það verður tæpast nema fólki sé gert kleift að hjóla í öruggu umhverfi. Fyrir suma er algjör nauðsyn að vera á bíl, fatlaða, barnafólk o.s.frv.“

Þá segir Bergþór: „Stundum þegar ég renn fram úr bílaröð, ímynda ég mér að allmargir sem sitja fastir í röðinni myndu fegnir vilja komast út undir bert loft á hjóli ef þeim væri gert það kleift. Lítum til nágrannaþjóða „sem við viljum miða okkur við“ í þessu efni.“

Bergþór segir síðan á öðrum stað:

„Munum að þakka fyrir lífið!“

Nýjast