Áhyggjuefni forsætisráðherra í varnarmálum

Bandaríkin ætla að verja sjö milljörðum króna til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli á næsta ári.  Ríkisstjórn Íslands ætlar sjálf að leggja fram þrjúhundruð milljónir króna í sama tilgangi. Það staðfestir að innan ríkisstjórnarinnar er full eining um nauðsyn þessa varnarviðbúnaðar.

Eining í ríkisstjórn um varnarmál er mikilvæg og því er ástæða til að fagna þessari afstöðu.

Hernaðarumsvif á norðurslóðum eru áhyggjuefni 

Fréttastofa RÚV átti viðtal við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og formann þjóðaröryggisráðs af þessu tilefni. Hún sagði þar að hernaðarumsvif á norðurslóðum væru áhyggjuefni. Undir það geta væntanlega flestir tekið. Það áhugaverða í viðtalinu var aftur á móti það sem ekki var sagt og ekki var spurt um.

Forsætisráðherra tengdi þessar framkvæmdir ekki beint við varnir Íslands heldur hernaðarumsvif á norðurslóðum í breiðri merkingu. Framlag Íslands til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli verður því trauðla skilið á annan veg en að ríkisstjórnarflokkarnir séu á einu máli  um að landið verði að leggja sitt af mörkum í viðleitni bandamanna til að tryggja jafnvægi og frið á norðurslóðum.

Vitaskuld er það áhyggjuefni að nauðsyn skuli bera til þess. En hitt væri verra ef ekki væri sterk samstaða í ríkisstjórn Íslands um að horfast í augu við kaldan veruleika.

Mikilvægi samvinnu Íslands við Evrópuþjóðir í varnarmálum

Sennilega má ekki gagnálykta af orðum forsætisráðherra á þann veg að hún telji að framkvæmdirnar á Keflavíkurflugvelli þjóni ekki vörnum Íslands. Líklegra er að hún líti svo á að bætt aðstaða til hervarna á Íslandi leiði einfaldlega af víðtækari markmiðum Bandaríkjanna og evrópskra bandamanna. Allt er það í góðu samræmi við varnarsamninginn frá 1951.

Sú afgerandi breyting hefur orðið á síðustu árum að Evrópuþjóðir bæði innan og utan Atlantshafsbandalagsins hafa tekið verulega aukinn þátt í varnarviðbúnaði Íslands, meðal annars með umfangsmikilli loftrýmisgæslu.

Þessi varnarumsvif hafa verið til marks um vaxandi þýðingu evrópskrar samvinnu fyrir Ísland.

Breyttur heimur en óbreyttur varnarsamningur

Nú sýna Bandaríkin Íslandi áhuga á ný. Varnarskuldbindingar þeirra er óbreyttar frá 1951. En heimurinn hefur breyst mikið.

Réttilega lítur ríkisstjórnin enn á Bandaríkin sem mikilvæga bandalagsþjóð. En fram hjá hinu verður ekki horft að þjóðirnar deila ekki sömu sýn og áður þegar kemur að margvíslegum hagsmunum og grundvallar gildum.

Nefna má að efnahags- og viðskiptasamvinna Evrópu varð til fyrir tilstuðlan Bandaríkjanna. Sú samvinna hefur leitt til stöðugleika, hagsældar og betri friðar í álfunni. Nú eru Bandaríkin andsnúin þessari samvinnu fyrir þá sök að þau telja að það þjóni betur sérhagsmunum þeirra að eiga við mörg minni ríki hvert fyrir sig.

Á sama tíma ítrekar utanríkisráðherra Íslands að ekkert hafi fært Íslandi eins mikinn efnahagslegan ábata og aðildin að innri markaði Evrópusambandsins. Þarna stangast á hagsmunir landanna sem lúta bæði að efnahag Íslands og stöðugleika í Evrópu.

Áður áttu frjálsir fjölmiðlar um heim allan mest skjól í varðstöðu Bandaríkjanna um frjálsa hugsun. Nú tala stjórnvöld í Bandaríkjunum um frjálsa fjölmiðla sem óvin.  Lýðræðishugsun íslenskra stjórnvalda hefur hins vegar ekki breyst með sama hætti.

Í ljósi breyttra aðstæðna er þörf á fyllri varnarsamningi

Evrópuríkin og þar á meðal Ísland þurfa að ræða þessa breyttu stöðu gagnvart því ríki sem er hryggjarstykki Atlantshafsbandalagsins. Það hefði því verið ríkara tilefni fyrir forsætisráðherra og formann þjóðaröryggisráðs að ræða álitaefni af þessu tagi í tilefni fjárfestinganna á Keflavíkurflugvelli fremur en að færa talið almennt norður fyrir heimskautsbaug.

Bandaríkjastjórn hefur á síðustu tveimur árum í fyrsta skipti gefið tilefni til að menn geti efast um hvort varnarskuldbindingar hennar séu óskilyrtar. Hvort sem menn telja þennan vafa mikinn eða lítinn er þetta breytt staða.

Varnarsamningurinn segir ekkert um það hvernig skuli staðið að ákvörðunum ef til þess kemur að virkja efni hans, sem aldrei hefur reynt á. Ógnirnar sem snúa að fullvalda ríkjum í dag eru líka fjölþættari en var 1951. Og það er ekkert varnarlið á staðnum lengur.

Til hvaða ógna tekur varnarsamningurinn umfram almenna tilvísun í Atlantshafssáttmálann? Hvað þarf til svo að hann verði virkjaður? Hvernig á að standa að ákvörðunum ef nauðsyn krefur? Þetta eru mál sem þarf að ræða við Bandaríkjastjórn til þess að færa varnarsamninginn nær nútíma hagsmunum Íslands og breyttum aðstæðum, þar á meðal nýju gildismati Bandaríkjanna sjálfra.

Af hverju er ekki fjallað um þau áhyggjuefni sem snúa beint að Íslandi?

Að réttu lagi hefði forsætisráðherra og formaður þjóðaröryggisráðs átt að fjalla um þessi brýnu og krefjandi álitaefni varðandi varnarsamninginn í tilefni framkvæmdanna á Keflavíkurflugvelli. Er hugsanlegt að ekkert hafi verið fjallað um slíkar spurningar í þjóðaröryggisráði? Eða sér forsætisráðherra engin áhyggjuefni í þeim álitaefnum í varnarmálum sem snúa beint að Íslendingum?

Það er líka athyglisvert að fréttastofa RÚV skuli bara hafa áhuga á að spyrja forsætisráðherra og formann þjóðaröryggisráðs út frá gömlum kaldastríðs forsendum í tilefni þessara miklu framkvæmda á Keflavíkurflugvelli eins og ekkert hafi breyst í heiminum og ekkert á Íslandi.