Ætla að auka umsvif sín á grænlandi - „við sjáum fram á að styrkja og auka grænlandsflugið“

Íslenska flugfélagið Air Iceland Connect ætlar sér að auka umsvif sín í Grænlandi á næstu árum. Ástæðan fyrir auknum umsvifum flugfélagsins í Grænlandi eru bygging nýrra flugvalla á Grænlandi. Hafa grænlensk stjórnvöld tilkynnt um fjölgun á flugvöllum í landinu, ásamt því að stækka núverandi flugvelli í landinu. RÚV greinir frá þessu.
 
Vegasamgöngur eru litlar sem engar á Grænlandi og þurfa því Grænlendingar að treysta á skipasamgöngur, sem geta verið hægar, eða flugsamgöngur. Aukin umsvif námufyrirtækja í landinu hafa gert auknar kröfur um betri samgöngur á Grænlandi. Flugvellirnir í Nuuk og Ilulissat fá nýja flugstöð og 2.200 metra flugbraut, til að geta tekið við þotuumferð, en núverandi brautir eru aðeins 900-1.000 metra langar. Jafnframt verður nýr flugvöllur með 1.500 metra langri braut lagður við Qaqortoq, stærsta bæ Suður-Grænlands.
 
Í samtali við grænlenska blaðið Sermitsiaq segir Árni Gunnarsson, forstjóri Air Iceland Connect, að Grænland sé eitt af lykilmarkaðssvæðum flugfélagsins og með tilkomu nýrra flugvalla muni ferðamannastraumur til landsins aukast. 
 
„Við sjáum fram á að styrkja og auka Grænlandsflugið með tilkomu nýju flugvallanna.“ 
 
Þegar Árni var spurður hvort flugfélagið ætlaði sér að hefja innanlandsflug á Grænlandi segir hann að félagið hafi ekki enn þá skoðað þann möguleika.  
 
„Við höfum ekki skoðað það. Það er ekki inni í áætlunum okkar. En um það, hvað gerist eftir fjögur eða fimm ár. Maður getur ekkert spáð fyrir um.“