Að lofa eða lofa ekki upp í ermina á sér

Stundum kemur það mönnum í koll þegar þeir lofa upp í ermina á sér. En það er ekki algild regla. Stjórnmál eru alltaf að breytast. Trúlega eru innistæðulaus loforð algengari í pólitík en áður var. Það er ein af birtingarmyndum popúlismans.

Víst er að háttsemi af þessu tagi þrífst bara í andrúmslofti þar sem kjósendur refsa ekki fyrir hana.

Í Bretlandi standa kosningar fyrir dyrum. Þær snúast ekki bara um brexit. Í breskum stjórnmálum hefur Íhaldsflokkurinn oftast verið í vörn gagnvart Verkamannaflokknum í umræðum um heilbrigðiskerfið. Nú ætlar Íhaldsflokkurinn aftur á móti að snúa þeirri vörn í sókn og lofar meðal annars  fjörutíu nýjum sjúkrahúsum.

En fyrir nokkrum dögum gerðist það hins vegar að einn af  forvígismönnum breska heilbrigðiskerfisins skoraði á stjórnmálamenn að gefa ekki innistæðulaus loforð og búa ekki til óraunhæfar væntingar, það kæmi engum að gangi. Þetta er vissulega aðvörun úr óvæntri átt.

Kosningaloforðin í Bretlandi minna  um margt á síðustu kosningar hér heima hjá okkur. Forystumenn VG gáfu þá stærri loforð en nokkru sinni hafa verið gefin um aukin útgjöld til heilbrigðismála. Um leið boðuðu þeir mestu skattahækkanir í sögunni á auðmenn. Og þau voru ekki eini flokkurinn sem lofaði upp í ermina á sér. En munurinn er sá að VG hreppti heilbrigðismálin að kosningum loknum.

Þegar kjörtímabilið er hálfnað er veruleikinn svolítið annar: Engar skattahækkanir á auðmenn og aukin framlög til spítalanna duga ekki einu sinni fyrir umsömdum launahækkunum, hvað þá heldur til að stytta biðlista, leysa mönnunarvanda og bæta þjónustuna.

Heilbrigðisráðherra telur sig hafa efnt öll loforð flokks síns með því að láta Alþingi samþykkja heilbrigðisáætlun til 2030. Samkvæmt henni verður allur vandi heilbrigðiskerfisins úr sögunni þá, öll mál leyst. Það eina sem er ógert og bíður fjármálaráðherra næstu tveggja kjörtímabila er að útvega peninga til að framkvæma áætlunina. Innantómar efndir eru oft afleiðing af innantómum loforðum.

Það er pólitík af þessu tagi, sem forystumenn breska heilbrigðiskerfisins eru nú að vara við. Þeir óttast að hún skaði heilbrigðisstofnun þeirra til lengri tíma. Eigi að síður bendir flest til þess að  breskir stjórnmálamenn telji líklegra til atkvæða ávinnings að heyja baráttu næstu vikna á vígvelli innistæðulausra loforða fremur en á avígvelli raunsæisins.

Vandinn í íslenska heilbrigðiskerfinu er ærinn. Hann er líka af svipuðum toga og víða annars staðar. Ísland er ekkert öðruvísi. Við göngum að kjörborðinu innan tveggja ára. Heilbrigðismálin verða ugglaust eitt af heitustu málunum í þeirri kosningabaráttu.

Mikil pólitísk umræða um þau er nauðsynleg. Einn kostur er að láta hana fara fram á þeim popúlísku nótum sem VG sló í síðustu kosningum. Margir munu segja að heilbrigðisráðherra eigi ekkert betra skilið en að vera tekin sömu tökum og VG tók forvera hennar. En spurningin er: Kemur það að gagni fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda?

Önnur leið er sú að hlusta á sérfræðinga breska heilbrigðiskerfisins og hafa rökræðuna nær veruleikanum. Kannski gæti það orðið til góðs, þrátt fyrir lágstemmdari loforð?