21 í kvöld: yfir 800 milljónir fást af sölu upprunavottorða - græn skírteini hvetja til minni mengunar

„Verðfall hefur orðið á endurnýjanlegri orku og þess vegna þarf að skapa hvata til að verðleggja losunina. Við erum í kapphlaupi við tímann, segir Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs sem ræðir við Lindu Blöndal í þættinum 21 í kvöld um svonefnd hreinleikaskírteini sem seld eru frá Íslandi til evrópskra orkuframleiðenda sem nota m.a. kol eða kjarnorku til raforkuframleiðslu og losa mikið af CO2 - gróðurhúsalofttegundum.

„Einfaldasta leiðin sem margir horfa nú til er að verðleggja losunina þannig að þegar þú ætlar þér að framleiða orku með kolum að þá þurfir þú að taka inn í kostnaðinn á þeirri orku þann skaða sem kolin valda“, segir Halldór og kostnaðurinn af Grænum skírteinum geta flýtt fyrir  þróun til betri vegar.

„Til dæmis hefur viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir það markmið að til þess að geta framleitt orku þá þarftu að hafa til þess losunarheimildir og nánast allt að tuttugu prósent af allri losun í heiminum falla undir slík kerfi“, útskýrir Halldór. En losunarheimildir kosta pening. Halldór bendir á að stærstu ríki heims eins og Kína sjái að það verði að beita hagrænum stjórntækjum til að vinna hraðar gegn loftslagsbreytingum. Lykilatriði nú sé að það sé dýrt  að menga og losa CO2 út í andrúmsloftið. Þess vegna leggja fyrirtæki út í kostnað til að kaupa Græn vottorð og sá peningur fer til þeirra sem framleiða vistvæna orku eins og Ísland.

Bókhald þeirra sem kaupa „Græn skírteini\" innihalda því ekki meiri hreinleika í þeirra starfsemi. En skírteinin geta nýst þeim í samkeppni á markaði þar sem krafan er um meiri umhverfisvernd. 

Haldinn var opinn fundur í dag á vegum Samorku  þar sem rædd voru upprunaábyrgðir, eða Græn skírteini, stundum nefnd hreinleikavottorð og sem seld eru erlendum orkufyrirtækjum. Halldór var meðal þeirra sem þar flutti erindi en hann var yfirmaður Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í rúman áratug og hafði yfirumsjón með samningaferlingu um Parísarsáttmálann.  

Halldór ræddi m.a. í sínu erindi um samhengið á milli Grænna skírteina og orkuskiptanna, það er að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa.