21 í kvöld: græn orka er bara á pappírunum - mörg hundruð milljóna sala á upprunaábyrgðum til orkuframleiðenda í evrópu

 „Upprunalega er þetta sett á laggirnar sem liður í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í Evrópu”, segir Lovísa Árnadóttir frá Samorku í viðtali við Lindu Blöndal í þættinum 21 í kvöld um hreinleikavottorð sem seld eru héðan til raforkufyrirtækja í Evrópu. Samorka hélt í dag opinn fund um málið en Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja.

“Þetta gengur út á það að framleiðendur hreinnar orku fái aukið verðmæti fyrir að framleiða hreina orku  og fái þá hærra verð fyrir hana. Þetta virkar á svipaðan hátt og styrkjakerfi og þannig er þessu ætlað að framleiðsla hreinnar orku verði arðbærari en núna því hingað til hefur framleiðsla á orku með jarðefnaeldsneyti verið ódýrari og þess vegna gengur mun hægar að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku í álfunni”, segir Lovísa.

Sala á hrein­­leika­vottorðum íslenskra orku­fyrirtækja úr landi hafa verið umdeild. Hreinleikavottorðin, svonefndar upprunaábyrgðir eða Græn skírteini eru staðfesting á að raforka sé framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þessi skírteini hafa verið seld erlendum og óvistvænrum raforkuverum í Evrópu frá 2011, verum sem nota t.d. kol eða kjarnorku – Skeptískar raddir kalla þetta  aflátsbréf eða syndaaflausnir.

Um hvort að bókhald erlendu fyrirtækjanna geri þeim þá kleift að flagga grænum skírteinum og þar með falsa í raun framleiðslu sína segir Lovísa: „Nei, þetta er nefnilega ekki fölsun því að kerfið er algerlega óháð afhendingu. Það skiptir ekki máli að hvort sá sem kaupir raforkuna fái þessa tilteknu grænu raforku í hendur og fyrirtæki sem kaupa upprunaábyrgðir geta ekki nýtt þær til að núlla út sinn útblástur, þau þurfa ennþá að gera skil á því, á samsetningu sinnar orku í sínu landi þannig að þetta hefur engin tengsl við aðrar loftslagsábyrðir eða önnur loftslagsmarkmið heldur er þetta bara styrkjakerfi til þess að færa fjármagn til þeirra sem að framleiða hreina orku”.  

En af hverju ætti þessi erlendu orkuver að kaupa slík skírteini?

„Upprunaábyrgðir er hugsaðar sem tækifæri fyrir þá sem sjá einhvern ávinning í því að segja að orka þeirra sé hrein sem getur átt við fyrirtæki á almennum markaði í öllum Evrópulöndum”, svarar Lovísa. Þannig nái fyrirtækin forskoti á samkeppnismarkaði og borgi aukalega fyrir það.  

En er þetta þá græn orka bara á pappírunum hjá þessum erlendu fyrirtækjum? 

„Já, þetta er bara á pappírunum”, svarar Lovísa og þarna sé á ferð viðskiptakerfi sem hygli efnahagslega framleiðendum grænnar orku eins og á Íslandi og það sé markmiðið með þessu viðskiptakerfi.  

Landsnet gefur út upprunaábyrgðirnar vegna framleiddrar raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum og innheimtir gjald á hverja megawattstund (MWst) af viðkomandi framleiðanda. Selt er fyrir yfir 800 milljónir á ári frá framleiðendum orku hérlendis.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs átti einnig erindi á fundinum og hann er annar gestur Lindu í þættinum 21 í kvöld. Halldór var yfirmaður Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í rúman áratug og hafði yfirumsjón með samningaferlingu um Parísarsáttmálann.