21 í kvöld: freistingin til að græða á namibíu er líka á íslandi. formaður sfú: mikil verðmæti afla fer beint úr landi á kostnað þjóðarinnar.

Líkindin með Íslandi og Namibíu eru nokkur að mati Arnars Atlasonar, formanns SFÚ og hann talar um að verðmyndun á íslensku sjávarauðlindinni sé ekki gagnsæ og freistingar margar hjá stórum útgerðarfyrirtækjum til að græða á kostnað þeirra samfélaga sem búa að auðlindum, líkt og íslensku sjávarfangi.

Arnar, formaður SFÚ – Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda er í viðtali hjá Lindu Blöndal í frétta – og umræðuþættinum 21 í kvöld.

SFÚ talar um að freistnivandi sé í íslensku fiskveiði - og sölukerfi og að hann sé innbyggður í núverandi fyrirkomulagi. Í hverju felst hann í ljósi umræðu um Samherjamálið?

 Það er alltaf eins og allt fiskveiðistjórnunarkerfið okkar sé undir og það teljum við vera galla á umræðunni, hún á alls ekki að vera með því móti að annað hvort sé kerfinu hent eða því haldið“, segir Arnar og SFÚ telji að ekki sé hægt að tala um kvótakerfið sem einn órjúfanlegan hlut.

Arnar bendir á að á Íslandi séu tvö kerfi sem ákveði fiskverð og þar liggi freistnivandi íslenskra útgerðarmanna til að hagræða gegn hagsmunum þjóðarinnar og tekjum hennar af sjávarauðlindinni. Annars vegar sé verðlagt á opnum fiskmörkuðum og selt hæstbjóðanda og hins vegar sé fiskverðið ákvarðað samkvæmt opinberum gögnum Verðlagsstofu. Þó fari ekki allur fiskur á markað heldur fari stór hluti beint til vinnslu eða óunnin úr landi.

„Gallinn í kerfinu snýr að lokahluta þess sem er markaðshluti kerfisins og þar teljum við í okkar samtökum að stórkostlegar betrumbætur megi gera sem mun leiða af sér aukið virði auðlindarinnar á Íslandi“, segir Arnar og enn fremur að nú sé tvöföld verðmyndun í gangi. „Fiskverð myndast á tvenna vegu í landinu og í því liggur gríðarlegur freistnivandi“.

Samkvæmt SFÚ koma á bilinu 55 til 60 þúsund tonn af óunnum afla frá handhöfum veiðiheimilda, eða íslenskum útgerðum, aldrei til sölu á Íslandi og þá til fiskvinnslanna og þeirra sem framleiða fiskafurðir hér á landi. Um verð þessa afla sem fer úr landi sé ómögulegt að fá upplýsingar um. Freisting er því mikil til að selja fiskinn ódýrar annað hvort beint til vinnslu eða óunnan úr landi. Í stað þess að selja hann til íslenskra fiskvinnsla- og fiskframleiðenda sem eru félagar í SFÚ segir Arnar.

„Vandinn liggur í því að á hverju ári eru seld hundrað þúsund tonn á fiskmörkuðum landsins. Þessi fiskur er nánast undantekningalaust seldur hæsta verði. Hins vegar er afgangurinn af fiskinum seldur á samkomulagsverði sem miðast við verðmyndun sem Verðlagsstofa skiptaverðs gefur út sem eru viðmiðunarverð. Í síðustu viku horfði ég til þorsks og ýsu og þá var verðmunurinn á þessu tvennu 35 til 45 prósent. Og þarna liggur þessi gríðarlegi freistnivandi vegna þess að það er í eðli hvers góðs rekstrarmanns í útgerð að lækka öll aðföng sem hann getur. Ef hann getur lækkað fiskverð til sín innan ramma skatta og laga þá mun hann að sjálfsögðu gera það“.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir þetta?

„Við höfum margoft bent á það að allan fisk ætti að selja á fiskmarkaði en vitum þó að illgeranlegt er að selja allan fisk á uppboðsmarkaði. Þetta teljum við vera lykilrót að vanda kerfisins og ég vitna í að aðilar eins og Indriða Þorláksson hafa verið að benda á þessa milliverðlagningu eða undirverðlagningar áhættu. Auðlindanefnd Jóhannesar Nordal benti á það sama, að það væri algjörlegt lykilatriði að koma á einhvers konar uppboðskerfi eða verðmyndunarkerfi, bæði um auðlindirnar og svo líka hráefnið sjálft“.

Er spilling í þessu kerfi?  

„Ég vil ekki ganga svo langt en það er inn byggður hvati í kerfinu fyrir handhafa veiðiheimildanna til að lágmarka virðið sem vinnur algerlega á móti því sem það ætti að gera“.

Þetta er mjög mótsagnakennt ekki satt?

„Já, þetta er mjög mótsagnakennt. Fiskveiðistjórnunarkerfið er að þessu leyti gallað“, svarar Arnar. „Það er að því leytinu gallað að þjóðarhagurinn, það bitnar á honum þessi hvati útgerðarmannsins“.  

Arnar segir hvata útgerðarmannsins standi til að að lækka virði auðlindarinnar líkt og í Namibíu. Á milli landanna í þeim skilningi séu ákveðin líkindi.

Um Samherjagögnin segir hann:

„Ef að það sem sett hefur verið fram er á rökum reist þá byggir það allt á því að virði auðlindarinnar er talað niður og virði afurðanna sem búnar eru til er talað niður og það sem umfram lendir í skattaskjólum. Það er það sem að þessar upplýsingar leiða að. Og það er óumdeilt að íslensk útgerðarfyrirtæki hafa verið staðin að því að vera með fyrirtæki í skattaskjólum, það hefur ítrekað komið fram og verið bent á“

„En það er meira en áður af óunnum fiski sem er seldur úr landi og gagnast ekki fiskvinnslum á Íslandi?“

„Á undanförnum árum hefur það aftur færst í vöxt að fiskur sé fluttur óunnin úr landi. Í ár er áætlað að þetta magn geti numið 50-60 þúsund tonnum. Útreikningar aðila leiða sumar af sér að verðmæta aukning af því að vinna þennan afla hér innanlands gæti numið 6-7 milljörðum. Þessi fiskur rennur í dag algjörlega haftalaus og án hindrana úr landinu. Þessi afli kemur skv. gögnum Fiskistofu og Hagstofu að stærstu leiti frá handhöfum veiðiheimilda en einungis í litlu magni af fiskmörkuðum landsins.“

 „Þetta leiðir líkum að því að þarna sé um nákvæmlega sama freistnivanda að ræða. Ég hef ítrekað reynt að fá uppýsingar um á hvaða verði þessi fiskur fer úr landi, ég hef ítrekað reynt að fá upplýsingar um það hvaða skattstofn þessi fiskur myndar hér innanlands. Þessar upplýsingar hef ég ekki getað fengið“.

Það er því ógagnsæi í kerfinu, það er allt of lítið eftirlit og það hlýtur að vera það sem þið eruð að benda á og við erum að uppgötva núna í kjölfar þessa stóra Samherjamáls. En þetta mál sem er að koma upp núna, kallar það á miklar breytingar, það er að segja að við hugsum meira um að þjóðin fái meira út úr fiskinum?

Arnar segir að breytingar þurfi ekki að vera svo miklar og séu miklu minni en fólk telur.

„Ég held að þetta snúist bara um það að hugur stjórnmálamanna, hugur ráðamanna þjóðarinnar snúist örlítið og átti sig á því að við getum stóraukið virði sjávarafurða frá Íslandi með því að búa til hvata í kerfinu til að tala verðmætið upp en ekki niður“

Þannig að kjarni málsins er að við erum ekki að fá nógu mikið, þjóðin og ríkisbúskapurinn út úr auðlindinni?

„Já, það er mín sannfæring og í okkar samtökum að með því að lagfæra þessa litlu þætti er hægt að stórauka verðmæti auðlindarinnar og afurðanna sem við flytjum út og breytingarnar eru ekki á þeim stóra skala sem menn vilja halda fram“, segir Arnar.

Hvaða hagsmunir standa í vegi fyrir breytingum? 

„Maður spyr sig hvaða hvatar eru að verða til þess að þessar breytingar verða ekki. Hverjir eru þeir sem njóta hagsins, jú það er eins og við höfum verið að ræða“.

 Eru það stærstu útgerðirnar?  

„Það segir sig sjálft að hvatinn hjá þeim er til þess að tala í dag virði hráefnisins niður, virði auðlindarinnar niður. Við sjáum það í umræðunni um auðlindagjöld“.     

Innan vébanda SFÚ starfa stór og meðalstór   fiskvinnslufyrirtæki sem hafa verið leiðandi í framleiðslu og   markaðssetningu fiskafurða um árabil eða frá því   fiskmörkuðum á Íslandi var hleypt af stokkunum árið 1987. Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, SFÚ voru stofnuð  1994 en hétu í upphafi Samtök fiskvinnslu án útgerðar.