17 ára stúlka þríbrotin í andliti eftir hrottalega árás: „á föstudaginn sýndi hann mér hina sönnu hlið af sér“ - „stelpur, standið með sjálfum ykkur, alltaf“

Sautján ára stúlka var beitt hrottalegu ofbeldi í miðbæ Reykjavíkur á föstudaginn. Samkvæmt heimildum Hringbrautar er ofbeldismaðurinn um tvítugt en stúlkan aðeins 17 ára og voru þau par þegar árásin átti sér stað. Karlmaðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 25. október og er málið rannsakað sem tilraun til manndráps.

Stúlkan er eins og áður segir aðeins 17 ára og liggur nú á spítala. Hún tjáir sig um árásina á samskiptamiðlum. Þar greinir stúlkan frá því að hún sér þríbrotin í andliti. Þá þakkar hún fyrir að eiga góða að, fjölskyldu og vini. Stúlkan birtir mynd af sér og ljóst er á þeim að um stórfellda árás var að ræða. Stúlkan ber sig eins og hetja miðað við þann óhugnað sem hún hefur gengið í gegnum og skorar á aðrar stelpur að standa með sjálfum sér.

„Fjögur ár síðan ég kynntist strák sem ég elska svo heitt, Á föstudaginn sýndi hann mér hina sönnu hlið af sér. Þetta er ekki í fyrsta skiptið.“

Stúlkan greinir frá því að enn sem komið er hafi hún ekki talað við lögreglu, en lögreglan nýtir meðal annars upptökur úr öryggismyndavélum úr miðbænum.

Þá skorar hún á aðrar stúlkur að standa með sjálfum sér. Hún segir:

„Stelpur, standið með sjálfum ykkur, alltaf, sama hvað. Ég þakka fyrir allan stuðninginn. Ég mun ná mér og koma öll til.“