Sól­veig Anna: Borgin ætti að greiða öllu starfs­fólki leik­skóla þakk­lætis­bónus

Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrum formaður Eflingar, gagnrýnir hugmyndir borgarinnar um 75 þúsund króna launaauka til starfsmanna leikskóla ef þeir geta fundið annan starfsmann í leikskóla, líkt og vin eða ættingja.

Í gær kom í ljós að hætt hefði verið við þessar pælingar borgarinnar og skrifar Sólveig Anna harðorða færslu á Facebook-síðu sinni vegna málsins.

„Þvílíkt dómsdags rugl! Til að gera leikskólana "aðlaðandi" vinnustaði þarf að hækka launin og bæta starfsaðstæðurnar. Til dæmis þarf að ráðast í massíva endur og uppbyggingu á húsnæði; allt of margir leikskólar eru í gömlu, óhentugu húsnæði þar sem hvorki er pláss fyrir öll börnin sem dvelja þar né neitt sem hægt er að kalla eðlilegar vinnu-aðstæður fyrir starfsfólkið.

Ég fullyrði að á hverjum degi er til dæmis um alla borg verið með börn sem eiga rétt á sérkennslu í þeirri kennslu í krókum og kimum sem engin sómakær manneskja myndi vilja nota sem kennslurými en stuðningsfulltrúar og starfsfólk (og börnin auðvitað) verða einfaldlega að sætta sig við vegna yfirgengilegs plássleysis og vegna þess að allt of mörg börn eru "vistuð" í húsnæðinu,“ segir Sólveig Anna meðal annars í færslu sinni.

Að sögn Sólveigar Önnu sé kerfið hrunið og þau sem ráði vilji einfaldlega ekki viðurkenna það.

„Það eina sem heldur kerfinu uppi er samviskusemi og oft á tíðum fórnfýsi þeirra sem mæta til vinnu í leikskólana (mest konur, fæstar með leikskólakennaramenntun, en aðeins lítill hluti þeirra sem starfa í leikskólunum er með hana) undir erfiðum aðstæðum sem ganga á líkamlega og andlega heilsu þeirra,“ segir Sólveig Anna jafnframt.

Sólveig Anna segir að raunverulegum árangri hafi verið náð í síðustu kjarasamningum, „en þá vorum við samt að mínu mati í raun aðeins að ná einhverskonar umbun fyrir ofur-arðrán það sem á okkur hafi verið stundað.“

Þá sé enn margt óunnið og starfsmenn leikskóla eigi langt í land með að fá valdastéttina til að viðurkenna að þau eigi ekkert minna en allt það besta skilið vegna þess grundvallarhlutverks sem þau sinni í öllu gagnverki borgarinnar.

„Borgin ætti samstundis að sjá sóma sinn í að greiða öllum sem eru við störf í leikskólunum sem hún rekur á vinnuafli láglaunafólks 75.000 krónur í þakklætisbónus og þau sem fara með völd í borginni ættu svo að einhenda sér í það sem hlýtur að skipta mestu máli af öllu: Að sjá til þess að börnin okkar og fólkið sem annast þau og menntar búi við fyrsta flokks aðstæður. Það er komið af þessari vanhæfni og þessu fáránlega fúski,“ segir Sólveig Anna að lokum.