Björn Berg varar við: Jólin verða enn dýrari í ár – Sjáðu hvað hefur hækkað

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka, segir að jólin í ár verði töluvert dýrari en í fyrra. Björn segir að það sé kannski allt eins gott að vekja athygli á þessu núna þegar sumarveðrið er ekki upp á marga fiska.

„Það er svo lágskýjað að það tekur hreinlega á að vera beinn í baki,“ segir hann í aðsendri grein á vef Vísis. Hann segir að ef sumarið ætlar að fjara út með þessum hætti megi það eiga sig hans vegna og undirbúningur næsta hápunkts ársins, jólanna, hefjast.

„Það ætti ekki að koma á óvart að við Íslendingar verjum að jafnaði talsvert hærri fjárhæðum í mat, drykki og gjafainnkaup í desember en aðra mánuði ársins. Hin hefðbundnu heimilisfjármál, sem hjá mörgum dansa rétt á núllinu við hver mánaðamót, ganga þá oft ekki upp og jólin eru tekin að láni með tilheyrandi óþægindum og áhættu næstu mánuðina. Þetta er ekkert nýtt. Þó svo jólunum hafi verið fagnað hér á landi í ríflega þúsund ár og líklega enn lengur að heiðnum sið koma þau alltaf jafn mikið á óvart,“ segir hann.

Björn bendir á að auðvitað sé það þannig að á mörgum heimilum sé nægt svigrúm fyrir óvænt útgjöld. En hjá flestum hafi mánuður sem þessi áhrif, jafnvel mikil áhrif, á fjárhaginn.

„Rétt eins og óvæntur gestur sem býður sjálfum sér í heimsókn yfir jólin. Rétt eins og Eddie frændi í Christmas Vacation. En þessi jólin ætlar Eddie að taka með sér alla fjölskylduna, sem við skulum kalla verðbólgu,“ segir hann og nefnir svo dæmi um nokkrar vörur sem hafa hækkað.

„Frá jólunum 2021 hefur svínakjöt hækkað um 10% í verði og brúnaðar kartöflur um tæp 4%. Malt og appelsín er 5% dýrara. Ætlar þú að baka? Hveiti er 12% dýrara en þegar þú hnoðaðir síðast í lagtertu, smjörið 7%, egg 6% og mjólk 5% dýrari. Það sem meira er, það eru enn nokkrir mánuðir í jólin og líkur á enn frekari verðhækkunum, nema kannski á hveitinu sem hefur til allrar hamingju lækkað talsvert í verði erlendis að undanförnu,“ segir hann og bætir við að hægt sé að bregðast við á tvo vegu; með sparnaði eða með því að draga úr neyslu.

„Svona er staðan því miður. Jólin eru alltaf dýr og verða enn dýrari í ár. Það er skárra að vita af því núna en þegar jólahúllumhæið stendur sem hæst og ekki úr vegi að nota þetta átakanlega niðurdrepandi veður til undirbúnings svo tryggja megi sem notalegust jól.“