Tap Sýnar jókst um 206 milljónir - „Fyrri spár stóðust engan veginn“

Tap Sýnar jókst um 206 milljónir - „Fyrri spár stóðust engan veginn“

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir afkomu síðasta ársfjórðungs vonbrigði og að fyrri spár hafi engan veginn staðist. Tap Sýnar á öðrum ársfjórðungi nam 215 milljónum króna, sem er 206 milljóna króna aukning frá sama tímabili 2018, þegar tapið nam 4 milljónum króna. Hagnaður á fyrri árshelmingi ársins nam 455 milljónum króna, sem er 413 milljóna hækkun á milli tímabila.

Tekjur Sýnar á öðrum ársfjórðungi námu 5.023 milljónum króna, sem er 3 prósent lækkun á milli tímabila. Tekjur á fyrri árshelmingi lækkuðu um 189 milljónir króna milli ára, eða um 2 prósent.

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir Heiðar: „Afkoma síðasta ársfjórðungs eru vonbrigði. Fyrri spár stóðust engan veginn. Helstu ástæður eru verðlækkanir og frítilboð á fjarskiptamarkaði auk þess sem kostnaður á fjölmiðlamarkaði var umfram áætlanir.“

Hann segir Sýn hafa hagrætt mikið í rekstri eftir að ný framkvæmdastjórn tók við í maí. „[K]ostnaðarlækkun mun nema yfir 50 milljónum á mánuði þegar hún kemur fram í vetur. Deildir hafa verið sameinaðar, millistjórnendum og almennu starfsfólki hefur fækkað auk þess sem endursamið hefur verið við birgja. Rekstraráætlanir hafa verið endurgerðar, sem mun skila sér í áreiðanlegri spám.“

Heiðar segir að í framhaldi af stefnumótun og áherslubreytingum hafi deildir verið færðar til í skipuriti. Á meðal breytinga eru þær að tekjusvið eru núna skýrt afmörkuð og heyra beint undir Heiðar.

Nýjast