Pétur Már Halldórsson, Nox Medical, hjá Jóni G.: Stórsókn Nox Health gegn svefnleysi

Viðskipti með Jóni G. kl. 20:30 í kvöld:

Pétur Már Halldórsson, Nox Medical, hjá Jóni G.: Stórsókn Nox Health gegn svefnleysi

Pétur Már Halldórsson, frkvstj. Nox Medical.
Pétur Már Halldórsson, frkvstj. Nox Medical.

Pétur Már Halldórsson, framkvæmdatjóri Nox Medical, er gestur Jóns G. í kvöld. Nox Medical og Fushion Health sameinuðust nýlega undir hatti Nox Health og hyggur fyrirtækið á verulegt markaðsátak á næstunni. Velta hins sameiginlega fyrirtækis er um 4 milljarðar króna á ári en með því að samnýta krafta sína - sem og að taka inn nýtt hlutafé á dögunum frá Alfa Framtaki upp á 1,2 milljarða króna - gera stjórnendur fyrirtækisins sér vonir um vænlegan vöxt á næstu árum.

Nox Medical hefur starfað á Íslandi og framleitt lækningatæki til að greina svefn og svefntruflanir og selt tækni sína út um allan heim með þeim árangri að það er orðið eitt stærsta fyrirtæki á sínu sviði í heiminum. Fushion Health, var stofnað í Atlanta árið 2005 af Sigurjóni Kristjánssyni og Dr. Jeffrey Durmer og hefur þjónustað bandarísk stórfyrirtæki sem standa straum að heilbrigðiskostnaði sinna starfsmanna. Gjarnan eru þessi fyrirtæki með yfir 10 þúsund starfsmenn eða fleiri, og í sumum tilvikum hundruð þúsunda starfsmanna.

Það gerir sameiningu fyrirtækjanna tveggja auðveldari að eignatengsl hafa verið á milli þeirra. Eigendur Fushion Health áttu hlut í Nox Medical sem aftur átti stóran hlut í Fushion Health.

Svefnleysi er orðið alþjóðlegt vandamál víða um heim og samfélagskostnaður vegna þess eykst ár frá ári og nemur tugum og hundruð milljarða króna. Svefnleysi er rót að mörgum alvarlegum sjúkdómum; auk þess því fylgir augljós slysahætta ef t.d. bílstjórar, flugmenn og fleiri þjást af svefnleysi.

Stórfróðlegt viðtal við Pétur Má Halldórsson kl. 20:30 í kvöld.

Nýjast