Össur á mikilli siglingu: „Slæmt að fá tyggigúmmí sem annar var búinn að nota, það var búið að tyggja úr því bragðið“

Viðskipti með Jóni G. - Gestir voru Jón Sigurðsson hjá Össuri og Björn Zoega hjá Karólínska sjúkrahússinu

Össur á mikilli siglingu: „Slæmt að fá tyggigúmmí sem annar var búinn að nota, það var búið að tyggja úr því bragðið“

Jón G. Hauksson fékk til sín góða gesti, þá Jón Sigurðsson og Björn Zoega í þáttinn Viðskipti á Hringbraut. Jón er forstjóri stoðkerfafyrirtækisins Össur  og Björn stýrir Karólínska sjúkrahússinu í Stokkhólmi. Í þættinum fara þeir yfir stjórnun sjúkrahúsa, niðurskurðinn á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, stoðkerfafyrirtækið Össur og helstu vörður á glæstum vegi þess.

Gengi bréfa stoðkerfafyrirtækisins Össur hafa þrefaldast á síðustu fimm árum og á síðasta ári skilaði fyrirtækið 8,7 milljarða krónu hagnaði. Útlit er fyrir svipaðar tölur á þessu ári.  Jón G. Hauksson byrjaði á að spyrja Jón hverju hann þakkaði þennan glæsta árangur. Jón Sigurðsson sagði:

„Það eru ýmsar ástæður, þetta er náttúrulega miklu flóknara en það að það sé ein ástæða. Þetta er mjög stöðugur rekstur. Stefnumörkunin hefur verið sú sama. Við höfum alltaf fylgt sömu stefnunni. Þetta er eins og að grafa skurð, við gröfum alltaf í sömu átt.“

Mikil þróun hefur átt sér stað

Aðspurður um nýjustu vöru Össurar, gervigreindina, segir Jón fyrirtækið vera starfandi á markaði sem vex hægt en nokkuð örugglega. Framfarir í læknavísindum séu mjög miklar og að vöxtur þeirra felist í því að koma með dýrari og fullkomnari lausnir fyrir notendur og viðskiptavini. Jón segir að mikil þróun hafi átt sér stað og fyrirtækið sé í forystu á markaði. Jón sagði:

„Meiri peningar eða dýrari lausnir fyrir sjúklinga sem eru að sama skapi miklu betri þjónusta fyrir þá. Það er kannski ekki hægt að kalla þetta sjúklinginn í þessu tilfelli, en notandann.“

Koma sterkir inn á Asíu markað

Þá spurði Jón G. nafna sinn hjá Össuri um nýja tækifæri á öðrum mörkuðum og þá hvort markaðir í Asíu væru að koma í meiri mæli inn í stoðkerfaiðnaðinn.

„Okkar grunnur hafa verið þessir vestrænu markaðir, norður Ameríka og vestur Evrópa. Þar er okkar grunnur,“ svaraði forstjóri Össurar og hélt áfram:

„Þar eru langsamlega fullkomnustu kerfin og fullkomnustu heilbrigðiskerfin og okkar vörur hafa hingað til passað best inn þar. En Asía er auðvitað að koma mjög hratt upp og þar er að verða til mjög öflug og stór millistétt sem okkar vörur passa betur og betur fyrir. Það eru einfaldlega auknari kröfur sem gerðar eru til stoðtækja þar og þar erum við að koma inn mjög sterkir. Markaðshlutdeild okkar í heiminum er sirka 22% en í Asíu erum við eingöngu með 10% þannig að þar verður mikill vöxtur í framtíðinni og það eru ekki nema á milli 2 til 3 ár síðan við tókum yfir okkar dreifingu í Kína til dæmis en það hefur gengið mjög vel.“

Á síðustu tæplega tuttugu árum hefur Össur keypt rúmlega 25 fyrirtæki víðs vegar um heiminn. Aðspurður um hvað það sé sem Jón einna helst horfir til þegar nýtt fyrirtæki er keypt segir hann marga þætti spila inn í þá ákvörðun.

„Aðallega hvernig fyrirtækið passar inn í umhverfið sem við erum í og við viljum vera besti hugsanlegi eigandinn. Við erum að kaupa eitthvað, þar sem í fyrsta lagi, sem við höfum vit á. Við erum orðin mjög góð í þeim iðnaði sem við erum í og ég held að það slái okkur enginn við þar, enda á enginn að slá okkur við. Það er bara markmiðið. Við erum meira og meira að horfa á að gildi fyrirtækisins séu þau sömu og að þetta smelli saman.

Fjárfestingarsjóðir tyggja bragðið úr fyrirtækjum

Sjálfur kveðst Jón helst ekki vilja kaupa fyrirtæki af fjárfestingarsjóðum og velti Jón G. því fyrir sér hvers vegna svo sé.

„Þetta er eins og í gamla daga á. Ég man eftir því að við krakkarnir vorum að skipta á tyggigúmmíi og það var mjög slæmt að fá tyggigúmmí sem einhver annar var búinn að nota, það var búið að tyggja úr því bragðið,“ sagði Jón, forstjóri Össurnar og hélt áfram: „Það er það sem fjárfestingarsjóðirnir gera, þeir koma þarna inn og tyggja bragðið úr fyrirtækinu og maður fær svona notað tyggjó.“

Hér fyrir neðan má horfa á þáttinn:

 

Nýjast