Mannamál: Hans Kristján Árnason
Frásögn Hans Kristjáns Árnasonar af ævintýralegum aðdraganda og mótunarárum Stöðvar 2 er sannkallað yndisáhorf á aðventunni, enda fer þar innsti koppurinn í búri; annar tveggja stofnanda fyrstu einkareknu sjónvarpsstöðvarinnar á Íslandi. Hans Kristján er gestur Sigmundar Ernis í Mannamáli fimmtudaginn 14.des.
Stofnun Stöðvar 2 um og upp úr níunda áratug síðustu aldar er líkust lyginni, en þar komu að málum tveir perluvinir, svo ólíkir þó í háttum að líkja má við svart og hvítt; hvínandi eimreiðin Jón Óttar Ragnarsson var þar annars vegar, alltaf við það að skjótast út af teinunum og hins vegar hæverski bóheminn Hans Kristján Árnason sem hafði þann aðalstarfa á fyrstu árum stöðvarinnar að halda aftur af vini sínum svo allt yrði ekki endanlega vitlaust.
Og sögurnar sem hrjóta af vorum Hosa, eins og hann hefur verið kallaður frá því í skírninni fyrir 70 árum, eru svo safaríkar að unun er á að hlýða - og sömuleiðis að horfa, enda svipbrigin á stundum lymskuleg og glottið margrætt. Nægir hér að nefna söguna af því þegar þeir Jón Óttar freistuðu þess að ná samningum við Sky-sjónvarpsstöðina í Englandi og buðu aðalkóngunum þar út að borða á dýrasta og flottasta veitingastað Lundúna, sem Sky-menn höfðu þá aldrei tímt að borða á, en þegar Íslendingarnar kvöddu þá með virktum að máltíðinni og samningunum afloknum kom í ljós að þeir áttu ekki fyrir matnum. Voru þá góð ráð dýr, en samt ... hin glæsta framtíð Stöðvar 2 var ráðin.
Bóheminn Hans Kristján komið víðar við í atvinnu- og menningarlífinu heima og erlendis en tölu verður á komið.