Þjóðbraut Gylfi um launahækkanir

Klippur 16.03.2018

Kaupmáttur launafólks hefur hækkað og vextir eru mjög lágir núna segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Hann er gestur í þættinum Þjóðbraut í kvöld. Hann hafnar því að ASÍ hafi ekki unnið vel að kjörum launamanna og minnir á gamla tíma þegar laun voru hækkuð um meira en 100 prósent og verðbólga át allan ágóðann.

Gylfi leggur áherslu á að ríkisvaldið beri ábyrgð á því að lækka t.d. barnabætur og á allri skattalegri umgjörð kaups og kjara. Vilji menn gagnrýna eitthvað verði það að beinast beint að Alþingi. „Ábyrgðin er fyrst og fremst hjá stjórnmálaaflinu“, segir hann og verkalýðshreyfingin er undir friðarskyldu þegar t.d. skattleysismörkum er breytt. „Við getum ekki farið í verkfall útaf breytingu skattleysismarka“, bendir Gylfi á og að stefna ASÍ hafi verið að hækka krónutölu launa en ekki prósentur.

Gylfi minnir á að hvert félag innan ASÍ semji fyrir sig í kjarasamningum, ekki ASÍ sem slíkt og þess vegna sé ekki rétt að beina gagnrýni að heildarsamtökum launamanna þegar launahækkanir eru ræddar. Aðildarfélögin eru 48 talsins.

Umrót er í stóru stéttarfélögunum innan Alþýðusambandsins, Aðallega VR og Eflingar. Nýir formenn eru mjög gagnrýnir á hvernig launabaraáttan hefur farið fram og minni félög taka undir, þ.e. Framsýn verkalýðsfélag og Verkalýðsfélag Akraness. Mögulega eru þessi félög að leggja saman krafta sína en þau eru með meirihluta félagsmanna að baki sér núna innan ASÍ, rúmlega 52 prósent.

Spjótum hefur verið beint mjög persónulega að Gylfa. „Það er ekkert nýtt að vissir menn vilja að ég hætti“, segir Gylfi um kröfur formanns VR og formanns VLFA en nýr formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, segir Gylfi að verði að fá að tjá sig sjálf um hvort hún vilji vera í samfloti með þessum formönnum.

Þing ASÍ er í haust og segist Gylfi vilja ræða við sitt fólk áður en hann ákveður að bjóða krafta sína áfram, en neitar því ekki að það muni skipta máli í þeirri ákvörðun hve persónulega er sótt að honum í störfum fyrir sambandið.

„Geta Alþýðusambandsins til að fara með kröfur á stjórnvöld ráðast af því hvernig okkur tekst að skapa samstöðu”, segir Gylfi en það hafi ekki alltaf verið raunin, t.d. árið 2015. „En hvort að ég beri persónulega ábyrgð á því? Jú að einhverju leyti en auðvitað verður hreyfingin að huga að því þá hvernig við stöndum að þessum málum“.