Sonja Einarsdóttir á Þjóðbraut

07.06.2018
 „Þekkjum rauðu ljósin“ var yfirskrift málþings í gær sem haldið var af Bjarkarhlíð miðstöð fórnarlamba ofbeldis, Kvennaathvarfinu, Samtökum kvenna af erlendum uppruna Jafnréttisstofu, Lögvís lögmannsstofu, auk kvenna sem komið hafa fram í tengslum við Metoo-fjölskyldutengs. 

Markmiðið er að beina sjónum að vangetu stjórnkerfisins til að takast á við ofbeldi í nánum samböndum og úrræðaleysi gagnvart gerendum. Fjallað var um ofbeldið sem kerfið lítur framhjá og ósýnileika gerenda. 

Margir tóku til máls og á málþinginu hélt m.a. erindi Sonja Einarsdóttir, MA í félagsfræði. Sonja talar um eigin reynslu um kerfið sem hún þurfti að takast á við eftir að ofbeldissambandi hennar lauk. Að hennar mati er kerfið þungt, svifaseint og kostnaðarsamt. Frá því að sambandi hennar lauk, fyrir einu og hálfu ári síðan, hefur enn ekki verið hægt að ljúka málum og á meðan verður hún fyrir stöðugu áreiti af hálfu gerandans en alls hefur fyrrverandi eiginmaður hennar fengið fimm sinnum á sig nálgunarbann.

Sonja er á Þjóðbraut hjá Lindu Blöndal fimmtudaginn 7.júní.