Lilja Rafney og Oddný G.

07.06.2018

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir á Þjóðbraut í kvöld að efni frumvarpsins um lækkun veiðigjalda sem atvinnuveganefnd lagði fram fyrir um tveimur vikum sé í samfræmi við stefnu VG sem er að styðja við litlar og meðalstórar útgerðir. Búið er að draga frumvarpið til baka og verður ekki afgreitt fyrir áramót. Óbreytt veiðigjöld haldast því þangað til. Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar mætti með Lilju í þáttinn til Lindu Blöndal og benti á að augljóst hefði verið frá byrjun að málið myndi ekki ná fram að ganga og veiðigjaldalækkunin fari að stórum hluta til stærstu útgerða landsins.

Lilja Rafney benti á að samþjöppun í sjávarútvegi væri slík að nauðsyn væri að styðja við minni útgerðir og það sem fyrst en Oddný benti á að lækkun veiðigjalda kæmi samþjöppun veiðiheimilda ekki neitt við.

Lilja og Oddný deildu um fjármálaáætlunina sem nú verður rædd og afgreidd fyrir sumarfrí, sennilega í næstu viku. Lilja sagði mikil útgjöld þar að finna til heilbrigðismála en Oddný taldi ekkert bætt úr í velferðarmálum.

Verið er að semja um þau mál sem fá meðferð fyrir þinglok, sumarfrí. Líklega unnið fram í næstu viku.