Kjarninn 16.maí
Skynsamlega leiðin til að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla gæti verið að skoða skattkerfið og ívilnanir í því til fjölmiðla. Þetta segir Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra í nýjasta þætti Kjarnans á Hringbraut í gær, þriðjudaginn 16.maí.
Umsjónarmenn Kjarnans eru Þórður Snær Júlíusson og Þórunn Elísabet Bogadóttir.
Rætt er um fjölmiðlaumhverfið á Íslandi, en það er að taka margþættum breytingum um þessar mundir. Fréttatíminn er farinn í þrot, fjarskiptafyrirtæki eru að verða stærst á fjölmiðlamarkaði með kaupum Fjarskipta á stærstum hluta 365 miðla og mikil vandræði eru innan Pressusamsteypunnar. Á sama tíma hefur RÚV tekist að snúa stöðunni hjá sér, að hluta til með lóðasölu.
Ráðherra hefur áhyggjur af stöðunni. „Við erum í uppsveiflu og þetta ætti að geta gengið þokkalega vel. Ég hef verulegar áhyggjur af því að þegar niðursveiflan kemur þá þrengi enn meira að þessu starfi,“ segir hann. Hann segist telja skynsamlegt að skoða rekstrarumhverfið út frá skattalega þættinum. „Skoða skattkerfið og ívilnanir þar til prentmiðla, til vefmiðla þess vegna, og svo framvegis.“