Benedikt Erlings og Halldóra Geirharðs

31.05.2018

Kvikmyndin Kona fer í stríð var nýlega frumsýnd hér á landi. Áður var frumsýning á kvikmyndahátíðinni í Cannes þar sem hún vann til verðlauna. Viðtökur hafa vægast sagt verið meiriháttar, hvar sem borið er niður hjá gagnrýnendum hér heima.

Leikstjóri myndarinnar er Benedikt Erlingsson en með honum skrifaði handrit Ólafur Egilsson. Halldóra Geirharðsdóttir fer með aðalhlutverkið, kórstjóra sem verður einhvers kona Rambó á hjóli. Halldóra og Benedikt eru gestir á Þjóðbraut hjá Lindu Blöndal. Halldóra hefur m.a. verið sögð fara „með himinskautum“ í hlutverki Höllu kórstjóra og aðalpersónu myndarinnar.

Myndin fjallar um Höllu sem er kórstjóri og fremur markvisst skemmdarverk gagnvart stóriðjuverum hér á landi og lifir tvöföldu lífi.

Myndin er að auki spennumynd og fléttast þar inn í óvænt ættleiðing Höllu á úkraínskri stúlku.

Tónlist og tónlistarmennirnar sem hana flytja spila stóra rullu í myndinni sem er auk þess kómísk að mörgu leyti. Myndin er þó framar öllu afar frumleg um leið og hún er mannleg og pólitísk.