Uppskrift: Geggjaðar franskar Crêpes með nutella og banönum sem trylla mannskapinn

Matarást Sjafnar

Uppskrift: Geggjaðar franskar Crêpes með nutella og banönum sem trylla mannskapinn

Crêpes með nutella og banönum á fallegum degi
Crêpes með nutella og banönum á fallegum degi

Um helgar er lag að gera betur við sig og sína og töfra fram ómótstæðilega ljúffengar veitingar sem slá í gegn. Það má með sanni segja að franskar Crêpes með nutella og banönum slái í gegn og trylla alla þá sem elska nutella og banana. Hin fullkomna blanda með kaffinu eða í eftirrétt sem ávallt hittir í mark.  Hvað er betra á fallegum haustdegi sem þessum.

Þar sem best er að bera Crêpes pönnukökur fram heitar er mikilvægt að undirbúa sig vel og vera með allt tilbúið og ákveðna lagni þarf við að steikja pönnukökurnar því þær þurfa að vera næfurþunnar. Mikilvægt er að hafa deigið þunnt og létt og dreifa vel úr því á pönnunni. Ekta Crêpes pönnukökur eru steiktar á Crêpes rafmagnspönnukökupönnu sem er aðeins stærri en íslenska pönnukökupanna en það er alveg hægt að steikja þær á íslenskri pönnukökupönnu og það er alls ekki síðra.  Þessa uppskrift verður þú að prófa og njóta. 

Crêpes með nutella og banönum

190 g sigtað hveiti

¼ tsk salt

3 egg

360 ml mjólk

45 g smjör, brætt

Meðlæti

Nutella í krukku

Vel þroskaðir bananar

Byrjið undirbúninginn vel og skerið banana í sneiðar. Hitið pönnukökupönnuna og bræðið smjörið á henni og munið að hafa háan hita þegar þið byrjið að steikja deigið. Sigtið hveitið í skál. Bætið við eggjum og þeytið saman egg og hveiti.  Bætið smám saman mjólkinni við og að lokum bræddu smjör og salti. Þeytið vel.

Setjið örþunnt lag af deiginu á pönnuna þegar hún er orðin vel heit og steikið, snúið pönnukökunni við, bíðið í um það bil 30 sekúndur, brjótið pönnukökuna í tvennt. Smyrjið Nutella á heita pönnukökuna og dreifið banönum yfir. Það þarf að hafa hröð handtök. Brjótið svo pönnukökuna aftur saman, og steikið í örskamma stund á hvorri hlið til að Nutella og bananar bráðni vel saman.  Loks eru pönnukökurnar toppaðar með nokkrum bananasneiðum, rönd af nutella og stráð yfir þær flórsykri í gegnum sigti.  Crêpes pönnukökurnar eru bornar fram sjóðheitar. Þær verða enn ómótstæðilegri ef þær eru bornar fram með smá þeyttum rjóma til hliðar eða vanilluís.

Þið getið farið margar aðra leiðir með meðlæti á þessar ljúffengu Crêpes pönnukökur, frakkarnir fara ótroðnarslóðir og bera þær fram á óteljandi vegu. Meðal annars með skinku og osti, með kjöti af andalæri ásamt osti og ómótstæðilega góðum berjum svo dæmi séu tekin. Þið getið látið bragðlaukana fara með ykkur á flug og töfra fram ykkar uppáhalds Crêpes pönnukökur á franska vísu.

Verði ykkur að góðu.

 

 

Nýjast