Syndsamlega ljúffeng systursamloka croque madame

Matarást Sjafnar

Syndsamlega ljúffeng systursamloka croque madame

Syndsamlega ljúffeng systursamloka
Syndsamlega ljúffeng systursamloka

Þegar sólin fer að skína og hækka á lofti, gróðurinn að springa út og fuglarnir að syngja kemst ég sumarskap. Þá fara jafnframt bragðlaukarnir á flug og ýmsar nýjungar og hugmyndir af ljúffengum réttum fæðast sem vert er að snæða út á veröndinni í góðum félagsskap.

Á sunnudögum er fátt betra en að fá sér syndsamlega ljúffengan dögurð og það nýjasta sem ég töfraði fram úr eldhúsinu var þessi gómsæta croque madame með nýrri útfærslu sem bragðaðist ómótstæðilega vel. Þessi útfærsla féll svo sannarlega vel í kramið hjá heimilsfólkinu og verður klárlega á boðstólnum aftur.

Hér má sjá mína útfærslu á einfaldan máta.

Systursamloka croque madame að hætti Sjafnar

 fyrir tvo

4 súrdeigsbrauðsneiðar (ég notaði súrdeigsbrauðið frá Brauð &Co)

4 sneiðar af Havarti osti

2 msk af chilli majónes (ég notaði Hellmans chillimajónes)

2 stórar sneiðar af nýskorinni hráskinku

2 egg

½ pokinn rifinn mozzerella ostur

söxuð fersk steinselja eftir smekk (líka hægt að nota þurrkaða steinselju)

truffluolía eftir smekk

Byrjið á því að hita samlokugrillið, ég á stórt rifflað samlokugrill sem ég nota ævinlega þegar ég er að grilla stórar og betri samlokur. Spælið egg á pönnu, stráið rifnum osti yfir eggið með það steikist. Smyrjið tvær brauðsneiðar með um það bil eina matskeið af chillimajónesi, leggið síðan sitt hvora hráskinkuna á smurðu sneiðarnar og loks tvær ostsneiðar á hvora brauðsneið. Lokið samlokunum og smyrjið lokið með truffluolíu eftir smekk. Grillið samlokurnar í samlokugrillinu þar til þær verða gullinbrúnar og osturinn hefur bráðnað. Að því loknu er eggið með rifna ostnum sett á sitt hvora samlokuna og loks steinseljunni stráð yfir. Með þessari girnilegu samloku á góðum sumardegi er ljúft að fá sér ískalt freyðivín með eða mímósu. Njótið vel.

 

 

Nýjast