La Créme Caramel - Franski eftirrétturinn sem allir elska

Hefðir og siðir

La Créme Caramel - Franski eftirrétturinn sem allir elska

Franski eftirrétturinn sem allir elska
Franski eftirrétturinn sem allir elska

Flest okkar höldum við í ákveðnar hefðir og siði þegar kemur hátíðisdögum eins og páskum, jólum, sumardeginum fyrsta og svo lengi mæti telja. Sjöfn Þórðar heldur áfram að heimsækja sælkera og fagurkera sem njóta þess að halda í góða siði og venjur og líka að búa  til nýjar hefðir fyrir næstu kynslóðir. Að þessu sinni heimsækir Sjöfn, Önnu Björk Eðvarðsdóttur, formann kvenfélagsins Hringsins.

Anna Björk er mikill sælkeri og fjölskyldumanneskja og elskar að nostra við fjölskylduna og laða fram kræsingar við hin ýmsu tilefni. Einnig heldur hún úti matarbloggsíðu þar sem við getum fengið innsýn í það sem hún töfrar fram í eldhúsinu. Anna Björk er gift Guðjóni Magnússyni, arkitekt og þau eiga þrjár uppkomnar dætur, Aðalheiði Önnu og tvíburana Ingibjörgu Sigríði og Rut Margréti.  Svo hafa bæst við tveir ömmu og afa molar þeir Andri Hrafnar og Guðjón  Freyr, sem gefa lífinu nýjan og fallegan lit.  „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mat, svo mér fannst upplagt að fara að blogga um þennan áhuga mér til skemmtunnar, svo ég fór af stað með netsíðuna www.annabjork.is fyrir um það bil sex árum.“

Hvað er eftirminnilegast við páskahátíðina í bernsku þinni? 

„Alvarleikinn, þá var stemningin öðruvísi en er í dag.  Þá mátti varla brosa á föstudaginn langa og allt var lokað yfir hátíðina.  Í dag er fólk meira að njóta þess að vera í fríi með fjölskyldunni, sem er gott því það er oft lítið um frítíma í dag og það dýrmætt að njóta tímans með sínum nánustu.  En ég verð samt að vera hreinskilin, barnið ég man helst eftir skrjáfinu í sellófan pokunum, sem voru utan um páskaeggin og svo lyktin af súkkulaði sem lá yfir heimilinu á páskadag.“

Hver er þinn uppáhalds páskamatur?

„Lambakjöt, páskalambið finnst mér vera nauðsynlegt, helst með einhverju léttu meðlæti til að fagna hækkandi sól og vorinu.“

Heldur þú í ákveðnar hefðir í tengslum við páskana?

„Eins og ég er fastheldin á jólahefðir, hef ég ekki skapað neinar fastar páskahefðir.  Við fjölskyldan höfum alltaf verið í einhverri útivist um páskana.  Verið á skíðum, stundum verið í sumarbústaðnum.  Eftir að við fórum í hestamennsku þá voru við í hesthúsinu yfir alla páskana, á þessum tíma eru hestarnir komnir í svo gott form og vorstemningin fyllir þá eins og okkur.  Þá er farið í lengri dagleiðir og svo kom vinahópurinn saman á kaffistofunni í hesthúsinu og borðaði saman, og oft tekinn upp gítar og sungið fram á kvöld.  Stundum buðum við Guðjón hóp til  okkar eða við komum með á borðið hjá vinum okkar.  Þetta var mjög skemmtilegur tími.  Mamma og stjúpi  hafa síðustu ár boðið okkur fjölskyldunni í dásamlegan hádegisverð á páskadag.  Nú erum við í skútusiglingum svo það fer eftir veðri og vindum hvert við förum og hvað lengi við erum.  Dæturnar eru farnar að heiman  og eiga tengda fjölskyldur svo við erum ekki alltaf saman yfir páskana.“

Skreytir þú heimilið þitt á páskunum?

„Já, ég kaupi alltaf páskaliljur og greinar sem ég skreyti, hengi máluð egg og unga í þær en ég missi mig ekkert í skrautinu og nota  sama skrautið á milli ára.  Einstaka sinnum bæti ég einhverju nýju í safnið en ekki  miklu.“

Páskaliturinn þinn?

Gulur er auðvitað aðalliturinn, en ljósfjólublár  og fölgrænir eru í miklu uppáhaldi með.

Borðar þú páskaegg?

„Já, stundum en  ekki alltaf.“

Uppáhalds páskaeggið þitt?

„Auðvitað það sem er með góðum húmorískum málshætti.  Mér finnst góður málsháttur jafn mikilvægur súkkulaðinu.  Það er gaman að sitja í góðum hóp og lesa málshættina upphátt og gera svolítið grín og úða í sig súkkulaði, en mér finnst dökkt súkkulaði best.“

Áttu þína uppáhalds hnallþóru eða brauðrétt sem þú ert alltaf með á páskunum?

„Enga sérstaka, en mér finnst gott að hafa ekki súkkulaði í þeim eftirrétt eða köku sem ég er með á páskunum, það þarf eiginlega ekki að útskýra af hverju, það er súkkulaði í hverju horni, svo það er annaðhvort eitthvað ferskt með ávöxtum eða með karamellu.  Ég hef  gaman af klassíkum frönskum eftirréttum eins og créme brulée og sítrónu tart og hinum margfræga créme caramel.“

Viltu gefa okkur uppskriftina af þeim rétti, köku eða brauðrétti sem þú útbýrð/bakar ávallt á páskunum?

„Já, alveg endilega og það er auðvitað  la Créme Caramel, franski dásamlegi karamellu búðingurinn, sem svo margir elska.  Hann er yndislegur og hægt að búa hann til  daginn áður ef maður vill, það er svo gott þegar maður vill spara sér tíma,” segir Anna Björk. La Créme Caramel, er einn af þessum klassísku dásamlegu frönsku eftirréttum sem allir elska.  Rjómakenndur búðingurinn og bragðmikil karamellan er unaðsleg samsetning.  Ef þú ert ekki þegar aðdáandi er ekki seinna vænna en að prófa, hann er frábær.

La Créme Caramel

Fyrir 8-10 litlar skálar 

Karamellan

1 bolli sykur 

1/2 bolli vatn

Búðingurinn

1 l mjólk

1 vanillustöng, klofin og kornin skafin úr

8 egg

4 eggjarauður

1 bolli sykur

Byrjið á því að hita ofninn í 180°C.  Gerið skálarnar klárar.  Sykur og vatn sett í pott á háan hita.  Látið sykurinn leysast upp og sjóða þar til hann tekur lit og dökknar. Passið að hann brenni ekki eða verði of dökkur þá verður hann rammur.  Potturinn er tekinn af hitanum um leið og réttum lit er náð.  Botnfylli af karamellu er sett í hverja skál, henni er velt um botninn á skálunum á meðan hún er heit, svo botninnn á skálunum þekist vel af karamellu.

Mjólkin er sett í pott og fræin eru skafin úr vanillustönginni og bætt út í mjólkina sem er hituð varlega að suðu.  Takið mjólkina af hitanum og látið hana bíða. Á meðan eru eggin, eggjarauðurnar og sykurinn þeytt vel saman.  Mjólkinni er hellt út í eggin og hrært vel í á meðan.  Mér finnst best að setja skálarnar með karamellunni í djúpa ofnskúffu, setja blönduna í könnu og hella svo í skálarnar, þær eru fylltar alveg í topp. Ofnskúffan er sett í miðjan ofninn og fyllt að 2/3 af heitu vatni.  Álpappír er settur laust yfir skálarnar og bakað í 30 mínútur eða þar til hnífsoddi sem er stungið í miðjuna, kemur hann hreinn upp.  Tekið úr ofninum og látið kólna alveg og sett í kæli þar til á að bera á borð. Þá er beittum hníf rennt meðfram brúnunum á skálunum og disknum sem á að bera búðinginn fram á er hvolft yfir formið og svo snúið snögglega. Búðingurinn losnar úr og karamellan rennur yfir diskinn, voila!

Verði ykkur að góðu!

Myndir: Anna Björk Eðvarðsdóttir

 

Nýjast