Hrekkjavakan er æviforn og hefur þróast í áranna rás

Hefðir og siðir

Hrekkjavakan er æviforn og hefur þróast í áranna rás

Grasker eru orðin táknræn fyrir hrekkjavökuna.
Grasker eru orðin táknræn fyrir hrekkjavökuna.

Í dag, fimmtudaginn 31.október er hrekkjavakan haldin hátíðleg víða um heim. Hrekkjavakan hefur verið að ryðja sér til rúms á Íslandi á undanförnum árum. Færst hefur í vöxt að haldin séu hrekkjavökumatarboð og partý þar sem öllu er tjaldað til á mörgum íslenskum heimilum. Ungir sem aldnir klæðast grimmlegum grímubúningum og sníkja sælgæti út um allan bæ. Það má segja að siðurinn hafi borist hingað frá Bandaríkjunum, en staðreyndin er sú að hátíðin á sér miklu eldri rætur erlendis sem og hér á landi.

Við fyrstu sýn gætu graskersluktir, nornir, beinagrindur, draugar, vættir og önnur dauðatákn virst erlent fyrirbæri. Allt þetta hefur borist hingað til lands síðustu ár með bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.  Hrekkjavakan er farin að fylgja íslenska haustinu og haustlitunum. Hátíðin sem kennd er við Halloween í Bandaríkjunum á rætur að rekja til heiðinnar hausthátíðar sem Írar og Bretar fögnuðu til forna. Hefð myndaðist fyrir því að á hrekkjavöku væri brennandi kertum komið fyrir í útskornum næpum á Írland og í Skotlandi tíðkaðist að kveikja bálkesti. Fóru bæði ungmenni og fullorðnir á milli húsa klæddir búningum með grímur og gerðu öðrum oft einhvern grikk í leiðinni.

Þegar Írar og Skotar fluttust búferlum til Ameríku á 19. öld fluttist hrekkjavakan með þeim. Í Bandaríkjunum uxu aftur á móti grasker sem voru mun stærri en næpurnar og auðveldari að skera út og mynda hin ýmis konar andlit. Það má því segja að þannig tóku graskerin við af næpunum sem tákn fyrir hrekkjavöku Bandaríkjamanna sem síðan hafa borist hingað til lands.

Leifar sumra gamalla hefða lifa góðu lífi enn í dag í hrekkjavöku nútímans þar sem fólk klæðist grímubúningum og sjá má drauga og aðrar óvættir í skreytingum. Börn og ungmenni ganga gjarnan á milli húsa og sníkja um sælgæti og fái þau það ekki er viðkomandi hrekktur á einhvern hátt.  Hrekkjavakan barst til Bandaríkjana frá Írlandi fyrst og fremst og er því ekki upprunnin frá Bandaríkjunum. En við getum farið lengra aftur í tímann og fundið heimildir um allraheilagramessu og dísarblót sem vel er hægt að kalla hrekkjavöku.

Uppruni hrekkavökunnar talinn tengjast dísablótum
Það má segja að hátíð af þessu tagi sé mjög gömul á Íslandi og eigi gamlar rætur hér, eða frá landsnámsöld.  Um veturnætur voru haldin dísablót, þar sem menn heiðruðu verndarvættir ættarinnar. Í einum af þáttum Flateyjarbókar er sagt frá dísunum sem voru blótaðar um veturnætur. Þær voru engar þokkadísir, heldur ægilegar kvenvættir, blóðþyrstar og þungvopnaðar.  

Heiðnum sið breytt í kristni
Þegar Norður-Evrópubúar tóku kristni bannaði kirkjan ekki þessar gömlu, heiðnu hausthátíðir, heldur breytti þeim í allraheilagramessu. Hún var talin jafnmikil hátíð og jóladagur. Samkvæmt lögbókinni Grágás áttu bændur að gefa fátækum ölmusu þann dag, eins mikinn mat og vinnufólkið fékk í kvöldverð. Sá siður að börn gangi í hús og betli sælgæti á líklega rætur að rekja til svipaðra ölmusugjafa annars staðar.

Allraheilagramessa var ekki afnumin á Íslandi fyrr en árið 1770, en lifði áfram sem óformlegur hátíðisdagur fram á tuttugustu öld. Og enn halda sumir sviðamessu, sem er daufur endurómur hinna fornu vetrarnátta.

Meira að segja graskersluktirnar eiga sínar norrænu rætur, því áður en Evrópumenn numu Ameríku og fundu graskerið, voru luktir skornar út úr rófum bæði á Norðurlöndum og líkt og á Írlandi. Þegar heimilda er leitað í Flateyjarbók og Grágás þarf ekki frekari heimilda. Svo virðist sem hrekkjavakan eins og hún er í nútímanum, með öllum sínum óvættum og sælgætisbetli sé ævaforn og rammíslenskur siður ef svo má að orðið komast.

 

Nýjast