Daníel stígur fram: Opnar sig um ótrúlega atburðarás í vél Icelandair: Hann er maðurinn sem Hlynur bjargaði - Mínútur frá dauða

Daníel stígur fram: Opnar sig um ótrúlega atburðarás í vél Icelandair: Hann er maðurinn sem Hlynur bjargaði - Mínútur frá dauða

Daníel Örn Wirkner Jóhannesson, gullsmiður, er maðurinn sem var í lífshættu um borð í vél Icelandair í byrjun september. Frétt Hringbrautar um að læknirinn Hlynur Davíð Löve hefði ásamt hjúkrunarfræðingi bjargað lífi manns um borð í vél Icelandair sem var á leið frá Alicante til Íslands, en stefnan var sett til Írlands þegar ljóst var að maðurinn væri í lífshættu. Hlynur gaf Daníel lyf í æð og náði að halda honum stöðugum. Nú hefur Daníel stígið fram en það gerði hann á föstudaginn í ítarlegu viðtali við Mannlíf.

Daníel var í 20 þúsund feta hæð yfir Atlantshafinu þegar hann fékk slæmt flogakast og var í lífshættu. Aðeins nokkrar mínútur skildu á milli lífs og dauða. Þegar blaðamaður Mannlífs hitti Daníel var hann enn dauðþreyttur og enn að ná sér eftir lífsreynsluna, þrátt fyrir að tvær vikur væru liðnar frá atvikinu.

Daníel segir: „Ég man eftir því að við gengum samferða lækninum og fjölskyldu hans upp rampinn inn í vélina. Sonur hans var eitthvað órólegur og ég grínaðist svona í honum sem róaði hann aðeins. Síðan man ég næst eftir mér þar sem ég vaknaði tveimur sólarhringum seinna á gjörgæsludeild á spítala í Dublin.“

Veikindi Daníels má rekja til vinnuslyss sem hann lenti í árið 2008. Þá féll Daníel þrjá og hálfan metra af vinnupalli. Vinnuslysið hafði varanlegar afleiðingar fyrir heilsu, vinnu og líf Daníels. Flogaköstin eru afleiðingar þess, en fyrstu krampana fékk hann árið 2009 í aðgerð.

Það var svo á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 2012 sem hann lenti í fyrsta hjartastoppinu. Árið 2015 fékk hann annað hjartastop, á balli á Selfossi. Daníel kveðst muna eftir að læknir hafi verið kominn var til að ákvarða dánarstundina. „Það er kannski asnalegt að segja þetta, en ég man eftir að heyra hann segjast ætla að kalla dánarstund. Þarna hafði ég verið í hjartastoppi í dágóðan tíma, þegar lögreglumaður á staðnum sagðist vilja prófa eitt. Sá lamdi mig kröftuglega með báðum hnefum og braut á mér brjóstkassann en það dugði til.“

Daníel lýsir síðan aftur ástandinu um borð í vél Icelandair í samtali við Mannlíf.

„Þetta stóð mjög tæpt og írsku læknarnir segja að þetta hafi verið mínútuspursmál. Ég tæmdi tvær súrefnisflöskur sem voru um borð og því var pumpað í mig með belg. Ég var orðinn helblár í framan og það áður en vélin hafði náð að lenda. Hlynur reyndi að setja upp æðalegg, sem líklega var ekki auðvelt, en hann kom nálinni upp sem betur fer af því þá var hægt að gefa mér lyf til að reyna að stoppa köstin.“

Á Írlandi dvaldi Daníel á gjörgæslu í níu sólaringa. Hann segir:

„Ég vil koma sérstöku þakklæti til Hlyns, hjúkrunarfræðingsins sem ég veit engin deili á, starfsfólks Icelandair og bara allra um borð. Það héldu allir ró sinni, sem skiptir höfuðmáli við svona aðstæður, svo sjúklingurinn upplifi ekki panikástand og verði enn skelkaðri,“ segir Daníel og bætir við:

Hlynur er algjör hetja og græjaði þetta eins og sannur fagmaður og það er honum að þakka að ég er hér í dag.“

Hlynur hefur áður verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Hann opnaði sig í samtali við DV um að hann var sjálfur oft í lífshættu sem barn. Hann fæddist með tvo hjartagalla og þurfti að gangast undir fjölda aðgerða. Foreldrar hans óttuðust um líf hans oftar en einu sinni og oftar en tvisvar þegar hann var lítill. Hjartaskurðlæknirinn Bjarni Torfason bjargaði lífi Hlyns og hefur Hlynur síðan unnið með bjargvættinum sínum á Landspítalanum. Hlynur hefur síðan notað lífgjöfina til að bjarga öðru fólki, eins og Daníel í vél Icelandair.

Þá er rétt í lokin að vekja athygli á þessum mikilvægu upplýsingum frá Daníel:

„Það á að leggja manneskju í læsta hliðarlegu, halda öndunarvegi opnum, passa höfuðið og hringja á sjúkrabíl. Rétt viðbrögð og fræðsla skipta miklu máli þegar eitthvað kemur upp á. Því miður hafa orðið dauðsföll sem þurftu ekki að verða, eingöngu vegna rangra viðbragða.“

Hér má lesa ítarlegt viðtal við Daníel á vef Mannlífs.

Nýjast