Njótum undraheims FINNBOGA

MYNDLIST:

Njótum undraheims FINNBOGA

Verk Finnboga Péturssonar setja sterkan svip á Seltjarnarnesbæ um þessar mundir. Finnbogi hefur á undanförnum árum komið fram með heillandi innsetningar þar sem ólík listform skapa nýjar hæðir í samspili skúlptúrs, hljóðs, vatns, ljóss og arkitektúrs.

Listamaðurinn rær hins vegar á ný mið í verkum sínum á sýningu, sem verður opnuð í Gallerí Gróttu næstkomandi fimmtudag 27. ágúst kl. 17, undir yfirskriftinni Sjólag.

Þar sýnir Finnbogi tvívíð verk sem mynda eins konar stillimyndir af sjávarlandslagi. Með aðstoð tölvustýrðs rita og lögmálum hnitakerfisins dregur Finnbogi upp mynd af yfirborði sjávar út af Eskifirði þar sem munnmælasögur og gömul rit lýstu staðsetningu fengsælla miða. Í íslenskri atvinnusögu voru fá leyndarmál betur varðveitt og staðsetning fiskimiða, en hvert verk býr yfir sögu um slíka leiðarlýsingu.
Teikningarnar sjálfar taka svo mið af fyrirframgefinni sjóveðurspá, vindstefnu og ölduhæð.

Finnbogi lærði við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðan við Jan Van Eyck Akademíuna í Hollandi. Hann hefur sýnt víða um heim og var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001.

Annað verk eftir Finnboga, Infra, er einnig til sýnis í ófullgerðu sýningarými skammt frá Nesstofu. Um er að ræða viðamikla og magnaða innsetningu vatns, hljóðs og ljóss. Það sýningarými er opið daglega til 31. ágúst frá kl. 13-17.

Nýjast