Anna Björk galdraði fram syndsamlega ljúffengar Churros

Matarást Sjafnar

Anna Björk galdraði fram syndsamlega ljúffengar Churros

Syndsamlega ljúffengar Churros
Syndsamlega ljúffengar Churros

Í þættinum Fasteignir og heimili á dögunum heimsótti Sjöfn Þórðar, Önnu Björk Eðvarsdóttur formann Hringsins og matarbloggara með meiru um sumartengdar matarhefðir á hennar heimili. Í tilefni þess galdraði Anna Björk fram einn af sínum uppáhalds sumarrétti, syndsamlega ljúffengar Churros ásamt karamellu- og súkkulaðisósum sem láta engan ósnortinn. Sjöfn fékk Önnu Björk til að gefa okkur uppskriftirnar af þessum sælkeraréttum sem vert er að prófa og njóta í sumar.

Í innliti Sjafnar í eldhúsið til Önnu Bjarkar var Churroið í vinnslu og allt komið á fullt. „Þessi uppskrift er í algjöru uppáhaldi núna. Þegar ég gerði churroið bjó ég líka til aðeins öðruvísi súkkulaðisósu til að dýfa þeim í. Hún er krydduð með chilli og svo gerði ég líka Suður-ameríska mjólkurkaramellu Dulce de leche, sem er himnesk, ég er ekki að ýkja,“ segir Anna Björk með bros á vör. „Það er svo einfalt að búa til churros, svo ekki láta neitt stoppa þig í að smakka þessa dásemd.“

Þú ert með þessa guðdómlega ljúffenga karamellusósu til að dýfa Churroinu út í. Segðu okkur aðeins frá henni líka. „Hvað get ég sagt, þetta er rétta stöffið fyrir karamellufíkla. Ég hef ávallt keypt Dulce de leche út í búð þegar mig vantar skammt að þessu góðgæti, en nú ákvað ég að láta slag standa og búa hana til sjálf. Virkar ekki mikið mál bara mjólk, sykur og tveir klukkutímar og það er alveg rétt. En, það þýðir ekkert að vera með hugann annars staðar á meðan þessa tvo tíma, það er fátt eins rokgjarnt og mjólk í potti á hita, hún er komin út um allt áður en þú veist af. Svo það er gott að nota rólega stund í karamellugerðina, en honum er vel varið því lofa ég þér, hún er æði.“

Súkkulaði chilli gersemin er líka himnesk og kitlar bragðlaukana, hver er galdurinn bak við hana? „Það skiptir eiginlega ekki máli hvað þú borðar með þessari sósu, hún er svo góð. Það er ekki ný uppfinning að bragðbæta dökkt súkkulaði með eldpipar. Mayarnir í Mexíkó gerðu það löngu fyrir Krist, þeir drukku heitt súkkulaði með eldpipar og var sá drykkur aðallega ætlaður útvöldum. Samsetningin var góð þá og er það enn. Salt og súkkulaði er líka dásamleg samsetning, saltið gefur súkkulaðinu dýpra og fyllra bragð svo þetta þrennt saman er sigurvegari og er einmitt galdurinn við bragðið,“ segir Anna Björk sem er snillingur að galdra fram hina ýmsu kræsingar sem láta engan ósnortinn. Anna Björk gaf okkur upp allar uppskriftirnar og nú er bara að prófa og njóta.

Churros

fyrir 4 2 1/2 dl vatn

60 g. smjör

1 msk. sykur

1/4 tsk. salt

140 g. hveiti

1 stórt egg

1/2 tsk. vanilludropar

Olía til að steikja úr (ég notaði repjuolíu)

Kanilsykur

100 g. sykur

tæplega 1 tsk. kanill

Byrjið á því að búa til kanilsykurinn sem churroinu er velt upp úr og hafið hann tilbúinn í rúmgóðri skál. Vatn, smjör, sykur og salt er sett saman í pott og suðan látin koma upp á meðalhita. Hitinn er aðeins lækkaður og hveitinu hrært útí með sleikju og blandað rösklega saman. Takið af hitanum og látið standa í 5 mínútur. Því næst bætið við vanilludropunum og hrærið egginu út í með handþeytara eða í hrærivél, þar til deigið er slétt og mjúkt. Olían er síðan hituð í meðal stórum þykkbotna potti, um það bil 0.75 dl. Olían þarf að vera nokkuð heit þegar steikt er upp úr henni, gott er að setja smá deigklípu í pottinn til að prófa hitastigið. Setjið deigið í sprautupoka með meðal stórum stjörnustút á. Það er nauðsynlegt að vera tilbúin með skæri og spaða og hafa eldhúsrúllublöð á borðinu til að setja churroið á þegar það er steikt, til að láta mestu olíuna leka af eftir steikingu. 10-15 cm lengjur eru klipptar ofan í olíuna og steikt þar til churroið er vel gullinbrúnt og gegn steikt. Takið upp úr olíunni með spaða og látið leka af þeim í smástund (passar á meðan næsti skammtur fer í olíuna) svo er þeim velt upp úr kanilsykrinum. Haldið áfram þar til deigið klárast. Borið fram með chilli súkkulaðisósu og dulce de leche til að dýfa í, eða bara með kanilsykrinum. Athugið. Það er hægt að búa deigið til nokkru áður en það er steikt, en alls ekki geyma það í ísskáp, best að geyma það út á borði.

Dulce de leche mjólkurkaramellusósan

2-3 litlar krukkur

1 l nýmjólk (ekki léttmjólk)

300 g. sykur

1 tsk. vanilludropar

smá salt

Setjið mjólk og sykur í þykkbotna, rúmgóðan pott. Látið suðuna koma upp og lækkið hitann og látið malla á lágum hita í 1- 1 1/2 klukkustund eða þar til mjólkin fer að dökkna og karamellast. Hrærið varlega í blöndunni við og við. Ef það fer að myndast skán á mjólkinni, er henni fleytt af og hent. Eftir fyrsta klukkutímann er gott af fylgjast betur með karamellunni og hræra oftar í pottinum svo það brenni ekki við í botninum. Karamellan dökknar við lengri suðu svo þegar réttum lit er náð (fallega gylltum) er potturinn tekinn af hitanum og vanilludropum og salti bætt út í. Ég helli henni í gegnum sigti í skál og síðan er hún borin fram með churros eða hverju sem hugurinn girnist. Ef þú ætlar að geyma karamelluna er hún sett í krukkur og geymd í ísskáp. Hún geymist í 3-4 mánuði í kæli.

Chilli súkkulaðisósa súkkulaði aðdáandans

150 g suðusúkkulaði (ég nota Síríus, venjulegt)

2 dl rjómi

1 tsk. Green & Black kakó, sigtað

1 1/2 msk. smjör, mjúkt

gróft sjávarsalt á milli fingra

Cayenne pipar eftir smekk (ca. 1/8 tsk.)

Setjið rjómann í pott og hitið að suðu. Brjótið súkkulaðið í skál og hellið heitum rjómanum yfir súkkulaðið og látið standa í fimm mínútur. Hrærið vel saman þar til súkkulaðið er vel bráðnað. Bætið þá smjörinu og kakói út í ásamt salti og Cayenne pipar og hrærið í þar til smjörið er bráðnað, smakkið líka til. Súkkulaði gersemin er borin á borð með nýsteiktum churros, ís, vöfflum, ávöxtum, pönnukökum eða borðuð með skeið upp úr pottinum, hvaðeina sem hugurinn girnist. Þið verðið ekki svikin með bragðið.

Verði ykkur að góðu.

Nýjast