Umdeilt mataræði

Helga María ritar pistil um grenningarkúra og veitir góð ráð:

Umdeilt mataræði

Helga María Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Helga María Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur

Árið 2017 var allur iðnaður tengdur grenningaraðferðum metinn á um 8.4 billjónir íslenskra króna í Norður Ameríku einni. Til samanburðar er hægt að kaupa fyrir sömu upphæð yfir 170 Airbus A380 flugvélar, en hún er stærsta farþegavél í heimi. Þetta er ágætis fjárupphæð og það eru margir sem vilja fá hluta af þessum peningum og því eru megrunarkúrar að breytast frá ári til árs, því alltaf er verið að finna upp eitthvað nýtt til að selja. En ekki eru þeir að virka vel þegar til lengri tíma er litið þar sem veltan hækkar frá ári til árs.

Það er ekki til ein uppskrift að heilsusamlegu lífi og því þarf maður að finna út hvað hentar manni sjálfum. Við viljum öll hafa heilsu til að leika við barnabörnin okkar, halda á burðarpokum heim úr búðinni og komast niður stiga og því þarf að hafa varann á þegar við veljum hvað við setjum ofan í okkur. Það er í góðu lagi að prufa þessa kúra og sjá hvort það sé eitthvað sem hentar manni en það má ekki reyna að takmarka kolvetni og borða bara beikon og egg og halda að maður sé að fara að græða eitthvað á því. Við þurfum fjölbreytta fæðu fyrst og fremst til að fá öll þau næringarefni til að lifa í hraustum líkama og við búum við þau forréttindi að geta nálgast fjölbreytta fæðu auðveldlega.

Sjálf prufaði ég að drekka aðeins fljótandi fæði í þrjá daga eftir mánaðar reisu um Asíu, þá var ég farin að finna fyrir ónotum í meltingarfærunum eftir að borða framandi mat í langan tíma. Ég viðurkenni að fyrst varð ég svöng yfir daginn og fór að bæta við lífrænu haframjöli og hnetusmjöri í þeytinginn til að gera hann orkumeiri. Í dag byrja ég alla daga á fljótandi fæði því mér finnst gott að koma meltingunni af stað með hollum og góðum hristing sem auðvelt er að melta. Ég nota kókosvatn í grunninn, en ég kynntist því í Tælandi.

Hér eru nokkur atriði sem ég hef tekið saman sem hjálpa ykkur að velja hollari kostinn og þannig hjálpa líkamanum að eldast með reisn.

1. Fyrsta ráðið sem ég gef alltaf þegar kemur að mataræði er að sleppa sykurgosi alfarið. Í einni Fanta flösku eru 73 grömm af viðbættum sykri, það er eins og að hella rúmlega 18 sykurbréfum út í kaffibollann. Hvítur sykur er óhollur og við fáum hreint vatn ókeypis. Það sparar bæði peninga og bætir heilsuna, eitt glas með gosi kostar um 500 krónur á veitingastað, oft fylgir áfylling með og sökum þess hversu dýrt gosið er þá fyllir maður glasið aftur en það er enginn gróði fyrir líkamann.

2. Kolvetni eru ekki óholl. Kolvetni eru að finna í fjölmörgum matvælum en trixið er að velja gæði innan kolvetnis hópsins. Grænmeti og ávextir eru stútfullir af kolvetnum. Fólk hefur verið að hræðast ávexti vegna sykurmagns en það má ekki gleyma að ávextir eru mjög trefjaríkir og við inntöku þá draga trefjarnar niður hækkun á sykurstuðli okkar.

3. Brauð er heldur ekki óhollt, það sem skiptir máli er hvaða innihald er í brauðinu, að notað sé heilkorn, aðferðin við að baka skiptir máli, hvaða lyftiefni er notað og hvernig mjölið er ræktað. Trefjaríkt, sykurlaust heilkornabrauð er mjög hollt.

4. Lesið innihaldslýsingu á matvælum, því minna innihald því betra.

5. Takmarkið magn af unnum kjötvörum og helst sleppið þeim. Það var einu sinni talið að til þess að fá nægilegt magn af próteinum myndum við verða að borða rautt kjöt, en það er langt frá sannleikanum. Það er hægt að fá nóg af próteinum frá öðrum matvælum eins og hnetum, möndlum, baunum, fræjum og spergilkáli.

6. Við eigum að fá næringarefni úr hreinum mat. Matur vex á trjánum, í moldinni eða syndir í sjónum. Við eigum ekki að fá næringarefni frá einhverju sem er framleitt í verksmiðju með orðum á umbúðum sem er engin leið að vita hvað þýða.   

7. Orkudrykkir eru ekki heilsuvara og eru alls ekki gerðir fyrir börn. Ég mæli ekki með neinum púðurmat eins og próteindufti nema einhvers konar skortur sé til staðar og að það sé gert með læknisráði.

8. Veldu lífræna ræktun ef það er möguleiki. Við lífræna ræktun er ekki notað eiturefni, enginn tilbúinn áburður og erfðabreytt efni eru bönnuð. Matvæli sem eru lífræn eru oftast dýrari og því vel ég ákveðnar vörur sem ég kaupi lífrænar eins og epli og ber því þau hafa ekki þykkt hýði sem ver þau fyrir eiturefnum. 

9. Það er ekkert sem er bannað, ekki fá samviskubit vegna mats. Það má alveg borða eitthvað óhollt bara af því það er gaman. Við þurfum líka að leyfa okkur og njóta lífins. En þegar við fáum okkur óhollan mat mæli ég með að takmarka skammtastærðina, fá sér eina kökusneið og leggja síðan fá sér skeiðina.

10. Það síðasta sem ég mæli með er að tyggja matinn vel og að taka tíma við að borða. Það er fátt jafn skemmtilegt eins og að borða góðan mat í góðum félagsskap. 

Nýjast