SJÚKLINGUR GLEYMDIST Á AÐGERÐARBORÐI

Hrollkaldur og gleymdur eftir rafvendingu:

SJÚKLINGUR GLEYMDIST Á AÐGERÐARBORÐI

Sigurður Haraldsson greindi frá því í gær að hann hefði gleymst á aðgerðarborði á Hjartagáttinni á Landspítalanum eftir svokallaða rafvendingu. Þar hefði hann hímt skjálfandi í tvo klukkutíma án þess að geta björg sér veitt. Gleymskuna rekur hann til of mikils álags starfsfólks, undirmönnunar og skorts á fé til heilbrigðismála.

“Var að koma heim af Hjartagáttini þar sem ég þurfti rafvendingu í 5 skiptið á 6 árum, “ skrifar Sigurður. “Það er allt búið að sprengja utanaf sér á þessum spítala þar sem fólk þarf að bíða í rúmum á ganginum, í sætum á biðstofu með tæki og tól, ég gleymdist á aðgerðarborðinu eftir rafvendingu í tæpa tvo tíma það var svo sem ekki mikið nema hvað ég hafði ekkert yfir mér og skalf úr kulda, engin bjalla til að hringja og með fullt af slöngum tengdum við mig ásamt súrefni,” ritar Sigurður um reynslu sína á facebook.

“Fólkið reynir sitt besta en álagið er gríðarlegt og komið út fyrir allt sem eðlilegt er,” bætir Sigurður við.

Rafvending er gerð hjá einstaklingum með gáttatif eða gáttaflökt til að koma hjartslætti þeirra í reglulegan takt aftur.

Með því að deila upplifun sinni tekur Sigurður líkt og margir fleiri undir orð t.d. Kára Stefánssonar læknis sem berst með undirskriftaátaki fyrir því að meira fé renni til heilbrigðismála hér á landi.

Mjög kalt hefur verið milli forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og Kára vegna átaksins. Hafa harðar glósur gengið á milli. Ljóst er að áskorun Kára á sér víðtækan stuðning samanber sögu Sigurðar Haraldssonar. Kári hyggst boða Sigmund og Bjarna Ben til fundar þegar 75.000 undirskriftum verður náð.

Nýjast