Sigurður Ingi er sár og svekktur en þakkar hlýhug og traust: „Verður vart breytt úr þessu“

Sigurður Ingi er sár og svekktur en þakkar hlýhug og traust: „Verður vart breytt úr þessu“

„Undanfarna daga hefur rignt yfir mig skeytum og símtölum með ábendingum um myndina The Laundromat sem er aðgengileg á Netflix. Í henni er fjallað um Panama-skjölin og lögfræðistofuna Mossack Fonseca.“

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson , samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins. Hann tekur það nærri sér að vera bendlaður við spillingarmál í kvikmyndinni The Laundromat sem er sýnd á Netflix. Í myndinni er birt mynd af honum sem forsætisráðherra sem segi af sér vegna spillingarmála en ekki Sigmundi Davíð sem sagði af sér vegna Wintris. Sigurður Ingi:

„Svo illa vill til að í henni birtist mynd af mér þegar fjallað er um spillta þjóðarleiðtoga. Eins og fólki er eflaust í fersku minni þá var atburðarásin á þann veg að þegar upp komst um eignir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, í skattaskjólum Mossack Fonseca var hann knúinn til að segja af sér. Þetta voru erfiðir tímar í íslenskum stjórnmálum og Íslendingar fullir af réttlátri reiði og því mikil áskorun að setjast í stól forsætisráðherra.“

Sigurður Ingi bætir við að síðan þá hafi hann litið á það sem eitt af sínum hlutverkum að efla traust á stjórnmálum.  Sigurður Ingi heldur áfram:

„Ég vil þakka þeim sem haft hafa samband við mig fyrir þann hlýhug og traust sem ég hef fundið en einhverjir hafa að eigin frumkvæði skrifað Netflix og kvartað yfir rangri framsetningu.“ Þá segir Sigurður Ingi að lokum:

„Eins og mér þykir það sárt og óþolandi að vera bendlaður við þessi spillingarmál í The Laundromat þá verður myndinni vart breytt úr þessu. Falsfréttir eru og verða vandamál á tækni- og upplýsingaöld. Það er áskorun fyrir fjölmiðlaheiminn og framleiðendur efnis að hafa sannleikann ávallt að leiðarljósi.“

Nýjast