Mikilvæg kosning í Sviss um ríkismiðil

Svisslendingar kjósa bráðlega um framtíð ríkisútvarps og -sjónvarps:

Mikilvæg kosning í Sviss um ríkismiðil

Leiðari Morgunblaðsins í dag:

Svisslendingar ganga að kjörborðinu fjórða næsta mánaðar og taka afstöðu til þess hvort leggja eigi af það gjald sem íbúarnir greiða til að halda uppi svissneska ríkisútvarpinu og -sjónvarpinu, SRG, en gjaldið stendur undir 3 ⁄4 rekstrarkostnaðarins. Þessi systurstofnun Ríkisútvarpsins íslenska hefur sætt harðri gagnrýni á liðnum árum, meðal annars fyrir aukin umsvif og fyrir að draga taum þeirra sem eru vinstra megin við miðju stjórnmálanna. Þessi gagnrýni kemur Íslendingum ekki á óvart, enda á hún einnig við hér og hið sama á raunar við víðar þar sem ríkið stundar umfangsmikinn útvarps- og sjónvarpsrekstur. Erfitt hefur þó reynst að hreyfa við þessum stofnunum og stjórnmálamenn hafa óttast að ræða um það sem aflaga hefur farið hjá ríkisútvörpum, enda eiga þeir mikið undir því að verða ekki fyrir reiði þessara miðla sem víðar en hér á landi hika ekki við að misbeita áhrifum sínum. Þrátt fyrir þetta hefur Svisslendingum tekist að koma því á dagskrá hvort landsmenn skuli neyddir til að greiða fyrir þjónustu ríkismiðils hvort sem þeir nota hann eða ekki og jafnvel þrátt fyrir að vera ósáttir við það hvernig honum er beitt. Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine fjallaði í gær um væntanlega kosningu og sagði að skoðanakannanir bentu til að ríkismiðillinn héldi velli, en jafnframt að ljóst væri að ekki yrði haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist. Eitt af því sem skipti máli í því sambandi væri að nú væri þegar í undirbúningi að setja í þjóð- aratkvæði tillögu um að lækka útvarpsgjaldið um helming ef hin nær ekki fram að ganga. Ætla má að sú tillaga eigi mun meiri möguleika, enda hefur sú sem nú liggur fyrir verið gagnrýnd fyrir það meðal annars að ganga of langt, en síður fyrir að engu megi breyta. Yfirmaður SRG virðist átta sig á að fólk er ósátt við að þurfa að greiða útvarpsgjaldið, ekki síst ungt fólk sem nýtir þjónustuna lítið sem ekkert, og segir að framundan séu umbætur hjá ríkismiðlinum. Þar verði öllum steinum velt við. Meðal þess sem útlit er fyrir að verði endurskoðað er sá fjöldi rása sem SRG býður upp á og auk þess er útlit fyrir að ríkismiðillinn muni stilla sig um að bjóða upp á auglýsingar á netinu og muni ekki nota netið til annars en að birta þætti úr útvarpinu og sjónvarpinu. Með þessu mun SRG til dæmis ganga skemur en Ríkisútvarpið, sem hefur gengið æ lengra í fréttaflutningi á netinu í samkeppni við einkarekna miðla sem þar eru fyrir og geta ekki farið óboðnir í vasa almennings. Hver sem niðurstaðan verð- ur í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Sviss eftir tæpar tvær vikur verður athyglisvert að fylgjast með þróuninni þar í landi. Og það verður líka fróðlegt að sjá hvort Ríkisútvarpið horfir til þess sem á sér stað í Sviss, ekki síst viðhorfs ríkismiðilsins til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið, eða hvort gagnrýninni verður áfram mætt með afneitun og yfirlæti. 

Nýjast