Margt fallegt komið úr geðveikinni

Högni Egilsson var gestur í Mannamáli í gærkvöld:

Margt fallegt komið úr geðveikinni

„Þetta er mikill kross að bera en það hefur líka margt fallegt komið úr þessu. Öll sorg er á einhvern brenglaðan hátt falleg. Það er breyskleikinn og þjáningin sem mannfólkið þarf alltaf að kljást við á þessari jörð. En mitt líf hefur verið mjög stimplað af þessu, það hefur einkennt mig og fylgt mér. Þegar fólk talar um mig þá er ég líka meðvitaður um að það viti að ég sé geðveikur,“ segir Högni Egilsson tónlistarmaður um baráttu sína við þunglyndi og maníu.

Högni var gestur í Mannamáli á Hringbraut í gærkvöld, þar sem hann var í einstaklega persónulegu viðtali við þáttastjórnandann Sigmund Erni.

Högni hefur um árabil talað opinskátt um glímu sína við geðveiki. Hann segist finna fyrir því að vera stimplaður meira í dag en fyrst þegar hann hóf að tala um geðsjúkdóm sinn. Ástæðuna fyrir því segir hann vera þá að í dag sýni hann af sér einkenni geðhvarfasýki trekk í trekk.

„Það koma upp maníur og ég hef átt við mikið þunglyndi og sjálfvígshugsanir að stríða. Bara síðast í haust þá var ég á mjög myrku svæði, „territorí“ sem ég vil alls ekkert fara á aftur og ég þurfti að koma fram með það. Auðvitað þurfti ég að segja frá því og opna fyrir það að ég væri að íhuga það að láta lífið. Auðvitað þarf maður að tjá sig til þess að „realísera“ það, ég þurfti að gera það til að taka kúvendingu á mínu lífi og mér líður bara mjög vel núna,“ segir Högni einnig.

Viðtalið við Högna í heild sinni er að finna hér að neðan:

Nýjast