Ketó skaðlegt sumu fólki

Hilma Hólm hjartalæknir er gestur Lindu Blöndal í 21 í kvöld:

Ketó skaðlegt sumu fólki

Hilma Hólm hjartalæknir
Hilma Hólm hjartalæknir

Hilma Hólm hjartalæknir er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræðir hún meðal annars um erfðavísindi og lyf, en um liðna helgi fór fram fræðslufundur í Íslenskri erfðagreiningu um þessi mál.

Á fundinum fjallaði Hilma um hvað erfðafræðin hefur kennt okkur um tengsl kólesteróls og kransæðasjúkdóms. Hún ræddi af hverju lyf sem minnka vonda kólesterólið hafa áhrif á kransæðasjúkdóm en lyf sem auka góða kólesterólið gera það ekki og hvort erfðafræðin geti leiðbeint okkur um mataræði.

Fjöldi fólks hefur tekið upp svokallað ketó mataræði. „Ketó er ein tegund af svokölluðum lágkolvetna kúr, þar sem er borðað lítið af kolvetnum. En í ketó þá áttu í rauninni að bæta upp fyrir það með því að borða mjög mikið af fitu. Flestir einstaklingar sem eru á ketó borða mikið af dýrafitu. Flestir hafa í gegnum tíðina aðhyllst þá kenningu að dýrafita og mataræði sem er ríkt af kólesteróli muni auka slæma kólesterólið í blóðinu og á endanum auka líkurnar á því að þú fáir kransæðasjúkdóm,“ segir Hilma.

„Menn hafa deilt mjög mikið um þetta á undanförnum árum. Það er ýmislegt sem styður það að kólesteról í mataræði muni hækka kólesterólið í blóðinu og það mun auka líkurnar á kransæðasjúkdómi. Þannig að ég er ennþá á þeirri skoðun, sem er byggð á þeim vísindum sem ég þekki, að maður eigi að borða góða blöndu af næringarríkum mat,“ bætir hún við.

Hilma segir að það geti hentað sumu fólki vel að minnka neyslu kolvetna og ketó mataræðið því álitlegur kostur fyrir það, en hún mælir þó með því að reyna að takmarka neyslu mikillar dýrafitu. Auk þess sé það ljóst að ketó mataræðið geti reynst fólki sem er með ýmsa áhættuþætti vegna kransæðasjúkdóma og fólki með fjölskyldusögu um kransæðasjúkdóma skaðlegt.

Nánar er rætt við Hilmu í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Nýjast