UPPSKRIFT AÐ GÓÐRI HEILSU

Hvað er góð heilsa, er spurning sem er á margra vörum:

UPPSKRIFT AÐ GÓÐRI HEILSU

Það er líklega mjög misjafnt hvaða skoðun fólk hefur á því. Fyrir suma þýðir góð heilsa það að vera laus við sjúkdóma og verki og geta stundað vinnu og áhugamál án mikilla vandkvæða. Fyrir aðra þýðir hugtakið að vera grannur og í brjálæðislega góðu formi.

En hvað er málið, hvað er góð heilsa og hvernig er hægt að öðlast hana?

Það sem að mínu viti skapar góða heilsu er að vera í jafnvægi.

  • Of mikið af þessu eða hinu skapar heilsufarsvandamál til langs tíma.
  • Of mikið af mat, of mikið af sykri, of mikið af kaffi, of mikið af líkamsþjálfun, of mikið af áfengi, of mikið af lyfjum og svo mætti lengi telja.
  • Of lítið getur einnig skapað vandamál.
  • Of lítið af næringarríkri og góðri fæðu, of lítil andleg næring, of lítil gleði, of lítil tjáning, of lítil útrás og fleira í þá áttina. 

Oft er fólk að leita að hinu eina sanna heilbrigði og hendir sér út í öfgar í líkamsrækt og mataræði, djöflast í ræktinni, hleypur og hleypur, neitar sér um heilu fæðuflokkana, treður í sig fæðubótaefnum og telur sér trú um að það sé ægilega heilsuhraust.

En hvað gerist svo?

Fæstir nenna þessu til lengdar og þá tekur við tómarúm sem þarf að fylla, eitthvað annað tekur við og ójafnvægið heldur áfram. Þeir sem ná árangri í leit sinni að góðri heilsu  eiga flestir eitt sameiginlegt. Þeir hafa hreinlega kynnst sjálfum sér það vel að það verður auðvelt að velja úr. Þá meina ég að velja það besta, það sem passar þeim. Þeir hafa oftast skýra sýn á hvað hentar,  velja það oftast og vita svo vel að inn á milli slæðist eitthvað sem er ekki endilega það besta, en eru ekkert að fara taugum yfir því.

Sumir vilja til dæmis halda sig frá ákveðnum fæðutegundum, en þá vegna þess að þeir finna að þeim verður ekki gott af þeim, t.d. vegna fæðuóþols eða annars. Aðrir vita að hæfileg líkamsrækt, góður göngutúr eða jóga hentar þeim mun betur en 10 km hlaup eða crossfit æfing. 

Erfiðasti hlutinn í leitinni að þessu dásamlega jafnvægi er auðvitað að horfast í augu við sjálfan sig og virkilega skoða hvað er í gangi í kropp og sál. Það reynist mörgum erfitt og því leitar fólk oft í skyndilausnir og fyrirfram hannaða matarkúra og lífsstílsprógrömm, sem henta kannski engan veginn. Það er einhvernvegin auðveldara að setja ábyrgðina á aðra í stað þess að skoða sjálfan sig og eigin líðan. 

Allt á sér þó upphaf upphaf og stundum er málið að byrja bara einhversstaðar og fikra sig svo áfram út frá því. Í framhaldinu er gott að fá hjálp einhvers færs fagaðila, sem getur aðstoðað við leitina að því sem hentar og virkar fyrir þig.

Finndu einhvern sem getur hjálpað þér við að finna út hvað er best fyrir þig persónulega og hentar þínum líkama og þínu sjálfi. Þegar svo góðu jafnvægi er náð, þá ert þú miklu færari um að skynja hvernig þér líður og mun flinkari í að koma þér inn á beina veginn, þegar þú lendir út af.

Það mun nefnilega  halda áfram að gerast, þú ert manneskja en ekki maskína.  Munurinn verður hins vegar sá að skiptunum sem þú lendir utan vegar fækkar og þú munt átta þig á að þú nennir ekki að vera lengi í vanlíðan. 

Ég svara spurningum lesenda á vef Heilsuhússins.  Þú getur sent inn spurningu með því að smella hér: 

Góða ferð í átt að betri heilsu!

Nýjast