Hvað ef hann hefði fengið að lifa? Faðmaði alla daginn sem hann dó - Stöðvum einelti

Hvað ef hann hefði fengið að lifa? Faðmaði alla daginn sem hann dó - Stöðvum einelti

Dagbjartur kom í heiminn á fallegum vetrardegi í febrúar um aldamótin 2000. Þegar keyrt var yfir heiðina, á leiðinni upp á spítala í sjúkrabílnum, var Dagbjartur farinn að gægjast út og hlaut því millinafnið Heiðar. Eins fljótt og hann kom í heiminn grunaði engan að Dagbjartur Heiðar yrði einungis ellefu ára gamall en hann tók sitt eigið líf sökum eineltis í september árið 2011. Hefur sorgleg og átakanleg saga hans vakið þjóðarathygli.

Þannig hefst áhrifaríkt viðtal sem birt var á vef Víkurfrétta. Þar var rætt við Arnar Helgason, faðir Dagbjarts en hann hefði orðið 19 ára í febrúar ef hann hefði lifað. Arnar lýsir Dagbjarti sem mjög hreinskilnu, fallegu og heiðarlegu barni.

Arnar með son sinn Dagbjart árið 2002

Í dag 8. nóvember er hinn árlegi Dagur gegn einelti og kynferðisofbeldi í öllum aldurshópum. Í tilefni dagsins er vert að staldra við og skoða hvar við erum stödd með þessi erfiðu, viðkvæmu mál.  Rannsóknir hafa sýnt fram á að afleiðingar eineltis geta haft langtímaáhrif á líf þolanda þess og mótað líf hans eftir að eineltinu lýkur. Í nýjum aðstæðum gæti þolandinn því enn upplifað höfnun og tortryggni þó svo að eineltinu sé lokið. Langtímaafleiðingar geta þó verið mismunandi og misalvarlegar. Sem dæmi um langtímaafleiðingar er bent á þunglyndi, kvíða, áfallastreituröskun og lágt sjálfstraust. Alvarlegasta afleiðing eineltis er svo sjálfsskaði eða sjálfsvíg. Þolendur eineltis geta því í langan tíma þurft að takast á við sálrænar afleiðingar sem geta hamlað þeim seinna í lífinu.

Dagbjartur  var næstelstur fimm systkina. Hann var fæddur með alvarlegan hjartagalla og glímdi einnig við ADHD og einhverfu. Hann var fórnarlamb eineltis alla sína skólagöngu og hafði gert nokkrar tilraunir til sjálfsvígs fyrir 11 ára aldur.

Foreldrar hans, Kaja Emilsdóttir og Arnar Helgason, stigu fram í viðtali í Kastljósi árið 2012, þá í þeim tilgangi að opna augu fólks fyrir þessu grafalvarlega samfélagsmeini.

Í febrúar 2017 ræddi Kaja einnig við DV. Hún sagði:

„Ég held að þetta hafi að vissu leyti opnað augu fólks fyrir einelti og hversu mikil dauðans alvara það er. Mér finnst hafa orðið ákveðin vitundarvakning í kjölfarið á þessu, eins og fólk sé orðið meðvitaðra um vandann. Það er ekki lengur litið á þetta sem bara einhver „strákapör.“

Arnar faðir hans sagði í samtali við Víkurfréttir: „Dagbjartur var skemmtilegur. Hann var algjör prakkari, miklu meiri prakkari en pabbi sinn. Ég fótbrotnaði eitt sinn þegar ég var að reyna að búa til golfvöll. Þá sat ég einn daginn í sófanum heima og var að horfa á sjónvarpið. Þá kemur hann til mín til að knúsa mig, stelur svo hækjunum af mér og fjarstýringunni, fer með hækjurnar fram, sest fyrir framan sjónvarpið og skiptir yfir á Cartoon Network. Ég gat ekkert gert.“

Arnar hló þegar hann lýsti þessu og sagði að þetta hafi einkennt Dagbjart. Hann var stríðinn og skemmtilegur, hafði mikinn áhuga á risaeðlum, geimferðum og vísindum almennt og varði löngum stundum á bókasafninu í Sandgerði við að lesa um alls kyns hluti. Þar var hann fastagestur, gekk frá bókum fyrir starfsfólkið og fékk í staðinn að kíkja í tölvuna.

Fæddist með hjartagalla og undirgekkst hjartaaðgerð

Dagbjartur þurfti snemma að berjast fyrir lífi sínu og tilveru. Hann fæddist eins og áður segir með hjartagallann og fór einungis fimm daga gamall til Boston þar sem hann undirgekkst hjartaaðgerð.

Um tveimur mánuðum síðar fékk Dagbjartur loksins að fara heim til Sandgerðis.

„Hann fór svo í aðra aðgerð þrettán mánaða gamall sem við vissum alltaf að hann þyrfti að fara í. Aðgerðin var svo gerð á föstudegi. Á sunnudegi var Dagbjartur sestur upp og farinn að dansa.“ 

Hjartagallinn átti þó alltaf eftir að hafa viss áhrif á líf Dagbjarts. Þol hans var ekki jafn mikið og annarra barna og það tók á litla sál að geta ekki hlaupið á eftir hinum eða hjólað eins og þau. Þá var Dagbjartur greindur með ódæmigerða einhverfu. Arnar faðir hans lýsir því á þessa leið:

Dagbjarti gekk vel fyrstu árin í skóla en með tímanum fannst honum erfiðara að mæta. Foreldrarnir töldu að hann væri að gera of mikið úr hlutunum en hann nefndi alltaf nöfn sömu drengjanna og gerði það alla tíð, sem væri að stríða honum. Veturinn áður en Dagbjartur dó reyndi hann að taka sitt eigið líf. Vikurnar fyrir það var hann mjög reiður og talaði um það að hann langaði ekki til þess að lifa lengur. Þetta væri allt saman ömurlegt. Þá var hringt inn á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans. 

„Þetta virtist hins vegar ekki nógu alvarlegt tilfelli fyrir þau og við vorum send á HSS. Þar fékk hann ágætis aðstoð hjá sálfræðingi og yfir sumarið gekk ágætlega hjá honum. Okkur fannst þetta allt saman vera farið að ganga betur og hann var orðinn ánægðari. En eftir sumarið byrjaði skólinn og þá sáum við þetta fara niður á við aftur.“

Þremur vikum síðar gat Dagbjartur ekki meira og ákvað að kveðja. Þetta kom fjölskyldunni algjörlega í opna skjöldu. Hann hafði virst hamingjusamur. Faðir hans telur öllum þessum árum síðar að hann hafi verið búinn að ákveða örlög sín. Arnar segir:

„Hann hafði komið alls kyns eignum fyrir hér og þar. Hann fékk til dæmis litla kisustyttu að gjöf frá ömmu sinni einhverjum árum áður. Helgina áður en hann lést átti amma hans svo afmæli.“ Þá gaf Dagbjartur henni styttuna í gjöf og sagðist vilja að hún héldi henni. „Amma, af því þú ert með ofnæmi fyrir kisum þá vil ég að þú eigir þessa,“ sagði hann.

Faðmaði alla síðasta daginn 

Þá tók Dagbjartur utanum alla skólafélaga sína, síðasta daginn, en það hafði hann ekki gert áður. Þá leiddi hann litlu systur sína heim og spjallaði mikið við hana og leyfði litla bróður sínum að leika sér með dótið sem hann átti og leikið sjálfur við hann.

Arnar lýsir síðasta kvöldi þeirra feðga á þessa leið:

„Ég var að horfa á sjónvarpið. Dagbjartur sat í sófanum að lesa bók. Ég sagði honum að fara inn til sín að sofa en hann vildi fá að klára.“

Korteri síðar fór Dagbjartur svo upp í herbergi til sín, eftir að hafa spurt mömmu sína hvort hann fengi að fara í tölvuna daginn eftir. „Mamma hans sest svo í sófann hjá mér og við horfum á einhvern þátt í sjónvarpinu. Við vorum með sængurfötin hans Dagbjarts í þurrkaranum og ætluðum að setja nýtt á rúmið fyrir hann. Við ákváðum að leyfa þurrkaranum að klárast. Rúmum klukkutíma síðar fer ég upp með lak sem ég ætlaði að setja á rúmið hans. Þá finn ég hann.“

Um klukkutíma síðar var Dagbjartur Heiðar úrskurðaður látinn á heimili fjölskyldunnar. Við tóku gríðarlega erfiðir tímar.

Hvað ef? Er Arnar svo spurður í viðtalinu:

„Heilbrigðiskerfið er svo fjársvelt að það getur ekki tekið við þessum fjölda fólks. Ég skil alveg BUGL, þau verða að velja og hafna. Þau geta ekki tekið við öllum. Þessi stofnun þyrfti að vera svona sex sinnum stærri en hún er í dag.“

Að mati Arnars hefði Dagbjartur þurft að fá stærra teymi til að aðstoða sig við að vinna í erfiðleikunum. Þá var Arnar spurður um drengina sem Dagbjartur nefndi að væru að stríða honum. Arnar er þeim ekki reiður:

 „Þetta voru bara börn sem áttu erfitt. Ég þekki þessa stráka í dag og tala alveg við þá. Ég er á þeirri skoðun að þau börn sem leggi í einelti líði illa annars staðar.““

Við verðum öll að hjálpast að og stöðva einelti.

Staldraðu við – hugsaðu málið!

Hér má lesa viðtalið í Víkurfréttum í heild sinni.

Nýjast