Hampur bjargar mannslífum: Eiginkona Gísla hætti að fá flogaköst – „Farin að vinna og er farin að sjá um mig í rauninni“

Umræður í 21 á Hringbraut: Hampur ekki eiturlyf heldur lækningalyf

Hampur bjargar mannslífum: Eiginkona Gísla hætti að fá flogaköst – „Farin að vinna og er farin að sjá um mig í rauninni“

Gestir Sigmundar Ernis Rúnarsonar í þættinum 21 þann 3. október voru þau Þórunn Þórs Jónsdóttir og Gísli Ragnar Bjarnason sem barist hafa fyrir því að leyfa hamp og olíu henni tengdri í baráttunni við allskonar sjúkdóma á undanförnum misserum.

„Hampurinn sem er kominn til að vera sem lækningalyf hér á landi sem og annars staðar. Umdeildur reyndar. Í æsku minni hélt maður að þetta væri einhverskonar eiturlyf en svo er nú reyndar ekki. Þetta hjálpar mörgum við margskyns veikindum svo sem krabbameini, flogaveiki og svo getum við áfram talið,“ sagði Sigmundur Ernir í upphafi þáttar.

Horfði á æxlið minnka

Þórunn sagði upphaf baráttu sinnar fyrir hampi hafa verið vegna vinar hennar sem fékk krabbamein fyrir um tíu árum síðan.

„Þá fórum við að stúdera kannabis og skoða aðra möguleika þar sem að meðferðin var mjög hörð sem að hann var í. Hann var ungur, þrítugur, og við prufuðum okkur áfram á allskonar hátt og við sáum alveg magnaða hluti gerast. Til dæmis var hann með hálskrabbamein og það var búið að taka hálfan hálsinn af honum og hann var með æxli sem stóð út og við gátum borið hassolíuna eða grasolíuna á æxlið og þá dróst það saman í smá stund og það opnaði kokið á honum og hann gat borðað. Annars gat hann ekki borðað og þetta gerðum við bara nokkrum sinnum á dag og þetta var eitthvað sem læknarnir gátu ekki gert. Þeir vildu setja túbu í hann. Þarna á þessu mómenti horfði ég bara á hann og ég hugsaði bara vá þetta er eitthvað magnað,“ sagði Þórunn.

Í kjölfarið kynntist hún fleira fólki sem hafði skoðað hampinn og hitti Dr. Stuart Titus sem hefur verið kallaður afi hampsins. Hann barðist fyrir því að hampurinn yrði leyfður í Bandaríkjunum og í dag er hann löglegt í öllum 50 fylkjum.

Þórunn: „Hann er búin að styðja mig rosalega mikið og gefa mér mikla fræðslu, styðja mig í þessari baráttu. Hans lífsleið er að fá þetta löglegt í öllum heiminum.“

Þá biður Sigmundur Þórunni um að útskýra efnið örlítið nánar.

„Já þetta er bara hampur, þetta er allt kannabis en hampurinn er 0,3% THC eða lægra. Enginn vímugjafi, ekki ávanabindandi og ekki skaðlegt. Svo ertu kominn í „weed” eða „marijuana” eins og flestir kalla það, þá ertu kominn í „medical.“ Þá ertu kominn með eitthvað sem veitir vímugjafa og það þarf að gera það með eftirliti. Olían sem við erum að tala um, sem er hampurinn, einu aukaverkanirnar af honum er að fólk sem er til dæmis með flogaveiki, það getur minnkað lyfin sem það er annars að taka. Það eru aukaverkanirnar. Þannig að þú ferð úr því að vera kannski í lyfja „coma“ í það að verða „functional sjúklingur,“ útskýrir Þórunn.

Vill að sjúklingarnir hafi val

Eiginkona Gísla Ragnars hefur lengi barist við flogaveiki. Síðan hún fór að nota hampinn þá hafa flogaköstin hennar fækkað.

„Jú, þetta kemur í veg fyrir að hún fái flog. Hún fær ekki flog lengur á meðan það er aðgangur að þessu úrræði. Hún var vön að fá þó nokkur flog á ári, mjög stór flog. Grandmal „seasures” sem eru í rauninni alltaf lífshættuleg og það endaði eiginlega alltaf uppi á sjúkrahúsi og að hringja í sjúkrabíl. Og það var alltaf bara aukið á lyfjagjöf og alltaf ráðleysi. Þetta hefur hjálpað henni rosalega mikið að komast út úr því og að minnka lyfin líka.“

Gísli kveðst hafa frætt sig um hvað væri að gerast úti í heimi og þótti honum það eðlilegt að geta fengið að komast í þetta efni og að fá að prófa það. Að sjúklingarnir hafi í það minnsta val. Gísli og kona hans þurfa sjálf að fara reglulega út að sækja sér efnið þar sem það er ekki hægt að nálgast það hérlendis.

„Við þurfum að redda okkur sjálf. En hún er í dag orðin algjör þátttakandi í lífinu og er farin að vinna og komin í nám og líður miklu betur. Hún er farin að sjá um mig í rauninni.“

Nýjast