Þriðjung krabbameina má forðast

Heilbrigðiskerfið:

Þriðjung krabbameina má forðast

Halla Þorvaldsdóttir frkvstj. Krabbameinsfélagsins
Halla Þorvaldsdóttir frkvstj. Krabbameinsfélagsins

Einn af hverjum þremur fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Rannsóknir sýna að draga megi úr líkunum með heilsusamlegum lífsháttum. Þannig er talið að hægt sé að koma í veg fyrir meira en þriðjung allra krabbameinstilfella. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.

Þeir sem nota ekki tóbak, fylgja ráðleggingum um heilsusamlega fæðu, stunda reglulega líkamshreyfingu, takmarka neyslu áfengra drykkja og fylgja ráðleggingum um sólarvarnir eru í minni hættu á að fá krabbamein.

Alþjóðlegi krabbameinsdagurinn er í dag, 4. febrúar. Tilgangur dagsins er að vekja athygli á þeim vanda sem fylgir krabbameinum og hvetja til umbóta og eflingar á sviði forvarna, greiningar og meðferðar gegn krabbameinum.

Krabbameinsfélög út um allan heim hafa sameinast í þriggja ára herferð sem gengur út á að fækka krabbameinstilvikum. Markmiðið er að uppfræða og vekja athygli á því að hver og einn einstaklingur getur haft áhrif, bæði fyrir sig og þá sem standa honum nærri en einnig út á við í samfélaginu.

Þrátt fyrir stórbætta vísindalega þekkingu á krabbameinum og skilning sem skilað hefur miklum framförum í greiningu og meðferð fjölgar þeim enn sem fá krabbamein. Það stafar fyrst og fremst af hækkuðum aldri þjóðarinnar. Fleiri og fleiri læknast þó af krabbameini eða lifa með það sem langvinnan sjúkdóm.

Mikilvægt að fá greiningu sem fyrst

Miklu máli skiptir að greina krabbamein sem fyrst. Oftast er því þannig farið að því fyrr sem hægt er að hefja meðferð því meiri árangur ber hún. Því skiptir miklu máli að fólk þekki þau einkenni sem geta verið vísbending um krabbamein og bregðist fljótt við þeim. Fólk ætti að temja sér að vera vakandi fyrir líkama sínum til að taka eftir breytingum. Sérstaklega ætti að veita athygli breytingum eða einkennum sem eru langvarandi og ef ekki er ljóst hver orsökin er.

Meðal helstu einkenna sem fólk ætti að vera vakandi fyrir eru sár sem ekki gróa, þykkildi og hnútar víða í líkamanum, óútskýrt þyngdartap, breytingar á hægðum eða þvaglátum, óvenjulegar blæðingar, þrálátur hósti, hæsi eða kyngingarörðugleikar. Einnig ætti að bregðast við breytingum á fæðingarblettum, óvenjulegri þreytu sem ekki minnkar við hvíld og viðvarandi verkjum sem eiga sér óljósar orsakir.

Nýjast