Ferðaðist fyrir tæpa milljón – Býr í glæsihýsi í Reykjavík og fær 130 þúsund á mánuði frá ríkinu í húsnæðisstyrk

Ferðaðist fyrir tæpa milljón – Býr í glæsihýsi í Reykjavík og fær 130 þúsund á mánuði frá ríkinu í húsnæðisstyrk

Alþingismenn fóru í 572 flugferðir innanlands 2018. Tæplega 80 prósent voru ferðir þingmanna Norðvestur- og Norðausturkjördæma milli heimilis og þings. Um þetta er fjallað á vef Ríkisútvarpsins. Þar kemur fram að Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, flaug langmest allra þingmanna innanlands 2018 en samtals var ferðakostnaður hennar innanlands 3,5 milljónir á síðasta ári. Þegar húsnæðis- og dvalarkostnaður ásamt öðrum aukagreiðslum eru teknar með í reikninginn er upphæðin um 6,4 milljónir. Þessar tölur eru að finna á vef Alþingis.

Sjá einnig: Ferðakostnaður Lilju innanlands var um 3,5 milljónir

Hringbraut mun skoða fleiri þingmenn og í öðrum flokkum en fyrst skulum við líta á tölur Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis. Ferðakostnaður Steingríms er mun lægri. Hann ferðaðist með bílaleigubíl fyrir 441 þúsund árið 2018 og flaug innanlands fyrir 470 þúsund. Sími og netkostnaður var 109 þúsund. Þá fékk Steingrímur 1,6 milljónir í Húsnæðis og dvalarkostnað á árinu 2018. Samtals gera þetta um 2,7 milljónir króna.

DV sagði frá því í byrjun árs 2018 að Steingrímur hefði búið í Breiðholti í 30 ár, og frá árinu 1999 í 314 fermetra einbýlishúsi við Brekkusel sem metið er á rúmar 100 milljónir. Frétt DV um að Steingrímur fengi um 1,6 milljónir á ári fyrir að vera með lögheimili á Gunnarsstöðum Þistilfirði vakti mikla athygli og reiði en um er að ræða fastar greiðslur til landsbyggðarþingmanna og skiptir engu máli þó þingmenn búi ekki úti á landi. Þannig fær Smári McCarthy sem býr á Hverfisgötu og er í göngufæri við Alþingi sömu greiðslu og Steingrímur.

Fjárhæðin er ætluð til að standa undir húsnæðiskostnaði á höfuðborgarsvæði eða í kjördæminu ef þingmaður býr á höfuðborgarsvæðinu. Bæði Steingrímur og Smári fá þennan styrk þrátt fyrir að búa í Reykjavík. Steingrímur sagði við DV snemma árs 2018:

„Ég fæ greiddan húsnæðis- og dvalarkostnað eins og yfirleitt aðrir landsbyggðarþingmenn, en hef aldrei sótt um álagsgreiðslur vegna tvöfalds heimilishalds.“

Steingrímur var með rúmar 1,8 milljón krónur í laun á mánuði á síðasta ári eða samtals 22 milljónir. Þá fær hann tæpa hálfa milljón í fastan starfskostnað. Sem forseti Alþingis hefur hann aðgang að bíl og bílstjóra á vegum þingsins. Ofan á það fékk hann svo húsnæðisstyrk upp á 1,6 milljónir króna, eða um 130 þúsund á mánuði, einungis vegna þess að vera skráður með lögheimili úti á landi og vera kjörinn sem landsbyggðarþingmaður. Þess má geta að aukagreiðslur til þingmanna eru ákvarðaðar af forsætisnefnd Alþingis þar sem Steingrímur fer með formennsku. Þrátt fyrir mikla gagnrýni almennings hefur þingheimur ekki séð ástæðu til að breyta þessu.

Nýjast