Kostir og gallar fylgja erfðabreyttum matvælum

Helga María skrifar:

Kostir og gallar fylgja erfðabreyttum matvælum

Það eru bæði kostir og gallar sem fylgja erfðabreyttum matvælum. Hvort vegur þyngra verður fólk að meta sjálft. Helga María skoðaði erfðabreytt matvæli til hlítar og greinir hér frá kostum og göllum þeirra.

Ég hef mikið verið að spá í erfðabreyttum matvælum, kosti og galla og hver langtímaáhrif eru. En það eru næstum engar upplýsingar að finna á umbúðum matvæla, aðeins að þær séu erfðabreyttar en engar upplýsingar eru um það hvaðan genaflutningurinn var og með hvaða tilgangi. Með því að erfðabreyta matvælum er hægt að taka gen frá plöntum, dýrum eða bakteríum og færa yfir í matvæli. Þetta er gert til að ná t.d. fram stærri uppskeru, uppskeru á slæmum umhverfisskilyrðum, auknu geymsluþoli, auknu næringargildi og breyttu orkugildi. Sem dæmi hafa menn tekið gen frá bakteríu sem framleiðir eitur sem drepur skordýr. Þetta gen hefur meðal annars verið sett í maís, við það framleiðir maísinn þetta tiltekna eitur og þegar skordýrin reyna að borða uppskeruna drepast þau.

90% af öllum bandarískum maís erfðabreyttur

Ekki eru allir hrifnir af þessari erfðabreytingu en það eru ekki aðeins skordýrin sem skemma uppskeruna sem drepast við snertingu við eitrið heldur fleiri dýrategundir eins og fiðrildi. En með þessu verður uppskeran stærri, en maís og þá sérstaklega bandarískur er ein af þeim matvælum sem er hvað mest erfðabreytt. Talið er að árið 2018 hafi um 90% af öllum bandarískum maís verið með erfðabreyttan stofn, en maísinn er notaður í um 80% af allri unnri matvöru í Bandaríkjunum og einnig er hann ásamt sojabaunum ein aðal uppistaðan í dýrafóðri. Aðrar matvörur sem oftast hafa verið erfðabreyttar eru t.d. tómatar, repjuolía, soja, bómull, kartöflur, bananar og tóbak. Í fyrstu var aðallega verið að erfðabreyta matvælum til að fá stærri uppskeru en síðar meir var erfðatæknin notuð til að breyta innihaldi matvæla.

 

Fyrsta matvaran sem var erfðabreytt til að auka næringargildi voru hin svokölluðu gullnu hrísgrjón. Þar var tekið gen úr sólfífli og flutt í hrísgrjónin sem gerði hrísgrjónin A-vítamínríkari. A-vítamínskortur er vel þekktur í mörgum löndum og algengt að börn á þeim svæðum hafi orðið blind vegna skorts á A-vítamíni. Ekki eru þó allir sammála um að þetta sé leiðin til að ná tökum á þessum vanda.

Hnetuofnæmi frá sojabaunum

Sojabaunir eru einnig mikið erfðabreyttar, fyrst var sett í þær gen til að auka uppskeruna og einnig var geymsluþol fræanna aukið. Síðar voru sojabaunirnar gerðar fitusýruríkari, en það var meðal annars gert með því að taka gen úr hnetum og færa það yfir í baunirnar en það hafði í för með sér óheppilegan fylgikvilla. Fólk sem hefur hnetuofnæmi getur framkallað ofnæmisviðbrögð við það að borða erfðabreytt soja. Í dag er erfðabreytt soja merkt sem hugsanlegur ofnæmisvaldur sökum þessa. 

Fyrsta erfðabreytta matvaran sem fékk leyfi til manneldis kom á markað árið 1994, það voru tómatar. Til að byrja með voru þeir erfðabreyttir með þeim tilgangi að ná fram lengra geymsluþoli, tómatarnir haldast þá lengur fagurrauðir og rotna mun síður og fengu því viðurnefnið ,,endalaust sumar.” Næst var reynt að ná fram betra þoli gegn kulda, þar næst gera þá ónæma fyrir meindýrum, síðan breyta næringarinnihaldinu, svo bragðbæta þá, setja í þá mótefni og svo framvegis, og svo framvegis. En hvar þetta endar veit enginn.

Það er samt ekkert sem bendir til þess að neysla á erfðabreyttum matvælum sé hættuleg, í erfðabreyttum matvælum eru sömu gen og í öðrum matvælum en munurinn er að þar hefur gen verið fjarlægt eða bætt við. Mér finnst ég samt eiga rétt á því að vita hvaðan fæðan kemur sem ég set inn fyrir mínar varir og að auknar upplýsingar ættu að vera á erfðabreyttum matvælum. Þannig get ég tekið upplýsta ákvörðun um hvort ég vil neyta hennar eða ekki.

Krabbameinsvaldandi eitur borið á matvæli

Eitt þekktasta og umdeildasta dæmið um erfðabreytt matvæli hlýtur að teljast ,,Roundup ready” maísinn. Roundup er illgresiseyðir sem er framleiddur af fyrirtækinu Monsanto, en það framleiðir einnig hinn erfðabreytta maís sem þolir að illgresiseyðirinn sé borinn á ítrekað á vaxtartíma plöntunnar. Illgresiseyðirinn eyðileggur uppskeru hefðbundins maís ef hann er borinn á á vaxtartíma, en hann skemmir ekki uppskeru Roundup ready maísins. Þá er hægt að bera eitrið oft á maísplöntuna, en það er umdeilt þar sem Roundup inniheldur virka efnið glýfosfat sem er talið hættulegt mönnum, það geti verið krabbameinsvaldandi.

Talið var að notkun á Roundup eyðinum hafi haft stóran þátt í að maður að nafni Hardeman greindist með krabbamein en hann notaði eyðirinn daglega í 26 ár. Í mars mánuði á þessu ári var eigandi Monsanto dæmdur til að greiða Hardeman 80 milljónir Bandaríkjadala. Málið er talið sína fordæmi en yfir 11.000 kærur bíða Monsanto í dag. Hvort niðurstaðan sé rétt eða ekki þá tel ég að erfðabreyting matvæla sé ekki alltaf skynsöm og á meðan ég fæ ekki nákvæmar upplýsingar um það hvað er verið að gera við matinn þá vil ég heldur velja mér lífrænt ræktaðar vörur sem innihalda ekkert eitur.

Heimildir:

Adoption of genetically engineered crops in the United States, 1996-2018. (2018). Economic Research Service, USDA. Sótt 25 apríl af https://www.ers.usda.gov/webdocs/charts/58020/biotechcrops_d.html?v=7149

Hsieh, T. H., Lee, J. T., Yang, P. T., et al. (2002) Heterology expression of the Arabidopsis C-repeat/dehydration response element binding factor 1 gene confers elevated tolerance to chilling and oxidative stresses in transgenic tomato. Plant Physiol. 129, 1086–1094.

Paine, J. A., Shipton, C. A., Chaggar, S.. Howells, R. M., Kennedy, M. J., Vernon, G., Wright, S. Y., Hinchliffe, E. and Adams, J. L. (2005). "Improving the nutritional value of Golden Rice through increased pro-vitamin A content"Nature Biotechnology23 (4): 482–7.

www.mast.is

Nýjast