Ég er „sober rock star“

Ég er „sober rock star“

„Óreglan er liðin hjá mér. Ég er hættur. Þetta er algjör klisja, ég er svona „sober rock star,“ þó ég segi sjálfur frá. Ég er búinn að segja bless við þann kafla í mínu lífi. Er búinn að taka upp meiri fókus og sinna því sem ég ann mest, sem eru tónsmíðar og ljóð,“ segir Högni Egilsson tónlistarmaður.

Högni var í sérstaklega persónulegu viðtali við Sigmund Erni í Mannamáli á fimmtudagskvöld.

Högni var í nokkur ár meðlimur í GusGus og lífsstíllinn sem fylgdi bandinu tók sinn toll á geðheilsu hans. Mikil ferðalög, óreglulegur vinnutími, rokk og ról, glamúr og eiturlyfjaneysla höfðu þar mikið að segja. „Ég hafði ekki tíma til að taka því rólega, ég vildi bara lifa þessu ævintýri til fullnustu. Þó það myndi fórna minni heilsu til skamms tíma, þá er það bara eitthvað tímabil. Ég fer inn í þessi ormagöng af fullum krafti,“ segir Högni.

Högni greindist með geðhvarfasýki, sem felur í sér maníuköst og þunglyndi, og segir lækna hafa sagt honum að þessi lífsstíll væri alls ekki hentugur fyrir fólk með sjúkdóminn. „Ég viðurkenni það fúslega að ég var ekki með „bipolar“ áður en ég byrjaði í GusGus. Lífsstíll GusGus gerði það að verkum að minn „bipolarismi“ fór af stað. Auðvitað er þetta „genetískur“ sjúkdómur en með eiturlyfjaneyslu „triggerast“ þetta af stað,“ segir Högni um sjúkdóminn sem hann hefur glímt við.

Ný plata með Hjaltalín og tónleikar í haust

Hann er fullur tilhlökkunar að koma fram að nýju með Hjaltalín. Hljómsveitin hefur ekki komið fram í dágóðan tíma en mun halda tónleika í haust og er um þessar mundir að vinna að nýrri plötu. „Ég get ekki beðið. Við erum í stúdíóinu núna að búa til plötuna. Þessi „kemía“ sem gerist þegar þú ert með bandi, hún er óviðjafnanleg og ótrúleg lukka. Ég er svo þakklátur að hafa átt þetta samferðafólk í mínu lífi,“ segir Högni að lokum.

Viðtalið í heild sinni er að finna hér:

Nýjast