Allt um inflúensu

Helga María og árlega inflúensan

Allt um inflúensu

Mynd: Doktor.is
Mynd: Doktor.is

Fjöldi fólks er ennþá að smitast af inflúensunni og því er vert að skoða ráðleggingar Helgu Maríu um hvernig megi fækka smitum.

Á undanförnum 12 vikum eða frá miðjum nóvember 2018 hefur inflúensa A verið staðfest hjá 63 einstaklingum og eitt tilfelli staðfest af infúensu B.

Veiran smitast yfirleitt þegar fólk hóstar eða hnerrar í umhverfið og úðinn berst í munn eða nef þeirra sem eru nálægt. Veirurnar geta einnig borist manna á milli með handabandi þegar höndin er full af sóttkveikjum og við að snerta mengaða hluti.  

Einkenni inflúensu koma yfirleitt fram eftir eins til tveggja daga meðgöngutíma. Helstu einkenni eru:

 • Hiti
 • Hósti
 • Særindi í hálsi
 • Nefrennsli
 • Beinverkur og höfuðverkur
 • Þreyta

Við smitum mest frá okkur þremur til fjórum dögum eftir að einkenni hefjast en við getum einnig verið smitandi áður en einkenni koma fram og allt að sjö dögum síðar. Í einstaka tilfellum geta smit verið nánast einkennalaus en einstaklingur er samt sem áður smitandi. En hvernig getum við komið í veg fyrir smit?

 • Reglulegur handþvottur er besta leiðin til að koma í veg fyrir smit.
 • Haltu þig fjarri fólki sem er með einkenni inflúensu.
 • Láttu bólusetja þig.

Bólusetning gegn inflúensu veitir um 60 – 90% vörn (fer eftir tegund inflúensu). Það tekur líkamann um 1-2 vikur frá bólusetningu að mynda mótefni og er lengd ónæmis allt frá 6-12 mánuðir. Vegna takmarkaðrar varnar geta bólusettir einstaklingar samt sem áður smitast af inflúensu, en talið er að þeir fá vægari einkenni og nái sér fyrr en þeir sem eru ekki bólusettir. Ný inflúenuveira kemur árlega og er því þörf á nýju bóluefni á hverju ári. Ástæðan fyrir því að bólusett er fyrir infúensu er sú að hún getur verið mjög alvarleg. Árlega er áætlað að um 15.000 – 70.000 dauðsföll verði í Evrópu og Norður Ameríku vegna inflúensu og inflúensutengdra sýkinga.

Sjúklingar með hjarta eða lungnasjúkdóma eða aðra undirliggjandi sjúkdóma eru í meiri hættu að fá alvarlegar sýkingar vegna inflúensunnar og bakteríulungnabólgu í kjölfarið. Við erum ekki að bólusetja okkur aðeins til að minnka líkur á smiti hjá okkur sjálfum heldur einnig til að minnka líkur á að smita aðra.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningu:

 • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
 • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
 • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
 • Þungaðar konur.

Ef einstaklingar smitast af inflúensu er ónæmiskerfið þeirra yfirleitt látið sjá um að ráða niðurlögum veirusýkinga. En einnig er hægt að taka inn veirulyf. Flóknara er að gera veirulyf en bakteríulyf þar sem gagnstætt bakteríum eru engin efnaskipti í veirum og þær geta ekki fjölgað sér nema í lifandi frumum. Erfiðlega gengur að búa til lyf sem hefur aðeins áhrif á veiruna en ekki hýsilfrumuna, en til dæmis eru til inflúensulyf sem beina virkni sinni á yfirborðsensím sem inflúensuveiran hefur. Hins vegar hafa komið fram stökkbreyttir stofnar inflúensu sem þessi lyf virka ekki á. En ef meðferð veirulyfja hefst snemma í ferlinu styttir það veikindatíma og getur dregið úr alvarleika sýkingarinnar. Lyfjameðferð skal ávallt vera undir eftirliti læknis.

Hvað er þá til ráða eftir smit?

 • Hvíld, láttu fara vel um þig og taktu því rólega.
 • Drekka vatn.
 • Taka inn hitalækkandi lyf eftir þörfum.
 • Halda sig heima fyrir til að koma í veg fyrir að smita aðra.

Heimildir: Landlaeknir.is, landspitali.is, doktor.is og cdc.gov

Nýjast