Ýjar að því að RÚV stundi kranablaðamennsku

Ari Edwald í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag:

Ýjar að því að RÚV stundi kranablaðamennsku

Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS), er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Eins og kunnugt er var MS dæmt í lok maí í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða 440 milljóna króna sekt vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu. Félagið hafi selt keppinautum ógerilsneydda mjólk, svonefnda hrámjólk, á hærra verði en MS og tengdir aðilar, KS og dótturfélög, þurftu að greiða.

Ari segir í viðtalinu að Samkeppniseftirlitið hafi lengi haft horn í síðu greinarinnar. „Það má segja að leiðangur samkeppnisyfirvalda gegn því fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur ákveðið að hafa í mjólkuriðnaði hafi hafist með húsleit hjá Mjólkursamsölunni skömmu eftir stofnun félagsins, eða í júní 2007, og hefur staðið óslitið síðan,“ segir Ari.

Ari gagnrýnir að Samkeppniseftirlitið skuli ekki hafa unað niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála heldur stefnt niðurstöðunni fyrir dómstóla. „Það er afbökun á íslensku réttarfari að þeir skuli geta gert þetta. Það er auðvitað eins og ef héraðsdómur færi í mál við Hæstarétt.“

Þá segir Ari: „Ég tel mig hafa tekið eftir því sem áhugamaður um þessi mál löngu áður en ég hóf störf hjá Mjólkursamsölunni að það væri ekki einleikið hvað það væri mikið um leka frá stofnuninni varðandi mál sem þar væru í rannsókn og til umfjöllunar opinberlega. Hverju væri von á í málum sem væru þar til rannsóknar, hvað sektir gætu orðið háar og svo framvegis. Þetta var ekki síst á haustin þegar fjallað var um fjárveitingar til stofnana.“

„Þetta eru alvarleg brot og í hópi alvarlegustu afbrota sem hægt er að fremja í stjórnsýslu og í meðferð stjórnsýsluvalds. Menn hafa enda verið dæmdir í fangelsi hjá innanríkisráðuneytinu og Fjármálaeftirlitinu fyrir slík brot. Hvað ætli RÚV hafi til dæmis, ef við nefnum einn fjölmiðil til einföldunar, gert margar fréttir um leka úr innanríkisráðuneytinu í tengslum við mál Tony Omos? Hvað ætli þeir hafi gert margar fréttir um lekann frá forstjóra Fjármálaeftirlitsins og fangelsisdóm yfir honum? Hvað hefur Ríkisútvarpið flutt margar fréttir um þennan kærða leka frá Samkeppniseftirlitinu til Kastljóss?

Fjölmiðlar eru auðvitað spenntir fyrir því að geta flutt fréttir sem byggðar eru á „lekum“ úr stjórnkerfinu, eða frá stjórnsýslustofnunum, en þeir mega ekki glata heimildarýni sinni, hverjir sem eiga í hlut, og verða að handbendum þeirra sem stýra vilja umræðunni og almenningsálitinu. Þá eru þeir annaðhvort lentir í pólitík eða kranablaðamennsku,“ segir Ari.

Nýjast