Yfir 1000 eignir íslendinga á costa blanca

Íslendingasamfélagið á Spáni er umfjöllunarefni nýrrar tveggja þátta raðar á Hringbraut sem hefst klukkan 20:00 í kvöld en þar verður fylgst með og sagt frá síauknum áhuga landsmanna á að festa sér húseign í landi sólarinnar við Miðjarðarhaf.

Þættirnir eru unnir í samvinnu við spænska fasteignafélagið Medland sem hefur þjónustað fjölda Íslendinga í þessum efnum á undanförnum árum, en óhætt er að segja að síðasta hálfa áratuginn hafi orðið sprenging í kaupum veðurbarinna og verðpíndra frónbúa á alls konar húseignum á Íberíuskaganum, jafnt heilu húsunum, parhúsum, raðhúsum og íbúðum í stórum fjölbýlishúsum þar sem margs konar þjónusta er í boði.

Sérstaka athygli vekur í þáttunum hvað nýjar húseignir á Spáni, ætlaðar íbúum Norður-Evrópu til lengri eða skemmri dvalar eru orðnir bjartar og rúmgóðar - og ekki skemmir verðið sem er mesta lagi helftin af því sem þekkist á Íslandi. Ofan í allt það kaup bætist svo verðlagið ytra sem er broslegt í huga landans, eins og þættirnir bera með sér, en þar er einmitt líka fjallað um menningu og matarvenjur Spánverja og alla þá afþreyingarkosti sem þar eru í boði allan ársins hring, undir öruggri sól. Fyrir vikið blómstrar Íslendinganýlendan á Spáni - og til marks um fjöldann má nefnaa að aðeins á Costa Blanca svæðinu suður af Alicante hafa að minnsta kosti þúsund eignir komist í eigu Íslendinga á undanliðnum áratugum.

Fyrir áhugasama er bent á netfangið medlandspann.is þar sem nálgast má frekari upplýsingar um auðveld húsakaup á Spáni á vöxtum og kjörum sem Ísland mun ekki keppa við á næstu árum, ef ekki áratugum.