Wow air óskar eftir greiðslufresti

Stjórnendur WOW air hafa óskað eftir fresti fram í miðjan mars til að gera upp ógreidd lendinga- og farþegagjöld á flugvöllum erlendis. Túristi.is greinir frá og segist hafa áreiðanlegar heimildir fyrir.

Á Túrista kemur fram að í bréfi sem WOW air sendi til viðkomandi flugvalla hafi félagið óskað eftir vilyrði fyrir því að notendagjöld flugfélagsins yrðu greidd í næsta mánuði en ekki í lok febrúar eins og áætlað var.

Þá er einnig greint frá því að í lok febrúar rennur út frestur sem eigendur skuldabréfa í WOW air veittu bandaríska fjárfestingafélaginu Indigo Partners og Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, til að ná samkomulagi um kaup Indigo á stórum hlut í flugfélaginu. Samningaviðræðurnar hafa staðið yfir í rúmar ellefu vikur en ekki hafa fengist neinar upplýsingar um gang mála; hvorki Skúli Mogensen né blaðafulltrúi Indigo Partners hafa svarað fyrirspurnum frá Túrista.