Vitundarvakning um fatasóun - „þegar við héldum síðast svona dag mætti umhverfisráðherra og gerði við buxurnar sínar“

Kvenfélagasamband Íslands hefur látið sig umhverfismál lengi varða og er meðal annars samstarfsaðili að vefnum matarsoun.is og vinnur nú að sérstöku verkefni um vitundarvakningu um fatasóun. Fatasóun er alþjóðlegt vandamál og árlega er hent 92 milljónum tonna af fötum. Framleiðsla á fötum er því miður ekki umhverfisvæn og til dæmis þarf 2.700 lítra af vatni til að framleiða einn bol úr bómul.

Laugardaginn 5. Október næstkomandi munu kvenfélagskonur mæta enn og aftur og aðstoða gesti umhverfisdags við fataviðgerðir til að lengja líftíma fatnaðarins og hvetja fólk til þess að nýta fötin sín betur og minnka þannig fatasóun.  Mikil ásókn er í þessa þjónustu og fólk greinilega farið að taka við sér varðandi vandamálið við fatasóun. 

„Þegar við héldum síðast svona dag mætti Umhverfisráðherra og gerði við buxurnar sínar,“ segir í tilkynningu frá Kvenfélagasambandi Íslands.

Kvenfélagasambandið hvetur alla til að mæta í heimsókn. Umhverfisdagurinn verður frá klukkan 12:00 til 16:00, laugardaginn 5. október á Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík.