Vísir að einhverju nýju á alþingi

Ríkisstjórnin kaus að láta umræðu um stjórn makrílveiða fara fram að næturþeli fyrir tveimur vikum eða svo. Hugsanlega var þetta markverðasta umræðan á þessu þingi. Hún dró nefnilega fram skýrar hugmyndafræðilegar línur milli stjórnarflokkanna þriggja annars vegar og þriggja af fimm stjórnarandstöðuflokkum hins vegar.

Athyglisvert er hversu fjölmiðlar, og alveg sérstaklega sjónvarp ríkisins, hafa lítinn áhuga á að miðla fréttum þegar hugmyndafræðilegur ágreiningur er uppi á Alþingi. Það á til að mynda við um þetta mál.

Einn helsti styrkleiki ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hefur legið í því að fáir hafa séð að stjórnarandstöðuflokkarnir fimm gætu náð saman um annan ríkisstjórnarkost.

Það er að vísu ekki unnt að draga þá ályktun af umræðunni um makrílinn að fram sé kominn nýr kostur um ríkisstjórn til mótvægis við ríkjandi hugmyndafræði í stjórnarráðinu. En umræðan og tillöguflutningur flokkanna þriggja var eigi að síður vísir að einhverju nýju. Hitt er svo annað hvort eitthvað verður úr því nýjabrumi.

Tillaga um betra jafnvægi milli þjóðareignar og veiðiréttar útgerðanna

Í umræðunni kom fram að þrír flokkar stjórnarandstöðunnar, Viðreisn, Píratar og Samfylking,  höfðu sameinast um nýja hugmyndafræðilega nálgun sem reist er á því áliti auðlindanefndar að auðlindagjöld eigi að koma fyrir tímabundin afnot. Stjórnarflokkarnir standa á hinn bóginn saman um að verja það ástand sem lengi hefur verið umdeilt og auðlindanefndinni var á sínum tíma falið að finna lausn á.  

Hér lýstur saman ólíkri hugmyndafræði. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vill viðhalda því ójafnvægi sem ríkt hefur á milli veiðiréttar útgerða og sameignar þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni þar sem hallar á almannahagsmuni. Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír leggja aftur á móti til lausn sem  tryggir betra jafnvægi á milli þessara hagsmuna.

Makrílfrumvarpið er sennilega fyrsta stóra málið sem stjórnarandstöðuflokkarnir þrír sameinast um með flutningi frumvarps þar sem birtist svo skýr hugmyndadafræðilegur ágreiningur við ríkisstjórnarflokkana. En þó að þeir hafi ekki flutt sameiginleg þingmál um önnur jafn stór pólitísk viðfangsefni virðast þeir þó eiga hugmyndafræðilega samleið á fleiri sviðum.

Kerfisbreyting í peningamálum og virkara erlent samstarf

Nefna má peningakerfið. Á Íslandi ríkir meiri ójöfnuður en í nokkru öðru menningarlandi milli þeirra sem fastir eru í  krónuhagkerfinu og hinna sem eru frjálsir að því að standa utan þess. Hagfræðingar hafa bent á að þessi skipan mála leiðir til þess að gjáin milli þeirra sem eiga mest og hinna sem eiga minna breikkar stöðugt.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var í raun og veru mynduð fyrst og fremst til þess að standa vörð um þetta kerfi, sem er einn helsti áhrifavaldurinn um  vaxandi ójöfnuð í eignaskiptingu. Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír tala hins vegar í þá veru að á þessu sviði þurfi kerfisbreytingu til að jafna aðstöðumun.

Varðandi samstarf við aðrar þjóðir vilja ríkisstjórnarflokkarnir þrír óbreytt ástand sem á rætur í  þrjátíu ára gamalli heimsmynd. Nokkrir talsmenn ríkisstjórnarflokkanna veifa popúlískri  Brexithugmyndafræði og eru kannski að því leyti nær nútímanum.

Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír standa augljóslega fjær þjóðernispopúlisma og virðast opnari fyrir dýpra evrópsku samstarfi með þeim þjóðum sem næst okkur standa í menningarlegum efnum. Þeir horfa einfaldlega fram frá sjónarhorni nýrrar heimsmyndar meðan ríkisstjórnin horfir til baka.

Á báðum þessum sviðum á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hugmyndafræðilega samleið með Miðflokknum.

Framsýni á móti íhaldi og jöfnuður á móti ójöfnuði

Stjórnarflokkarnir þrír standa tiltölulega sterkt að vígi þrátt fyrir nokkuð fall í skoðanakönnunum. Á hinn bóginn þurfa stjórnarandstöðuflokkarnir þrír rúmlega 10% fylgisaukningu til að ná meirihluta. Það er talsvert. Miðflokkurinn gæti síðan orðið leynivopn ríkisstjórnarinnar að kosningum loknum. Trúlega er líklegast að ríkisstjórnin stefni að því að halda áfram þannig breytt  eftir næstu kosningar.

En fylgi stjórnarandstöðuflokkanna þriggja hefur aukist jafnt og þétt að undanförnu. Þegar nær dregur kosningum er því  ekki með öllu útilokað að þeir gætu nálgast meirihluta. En þar með er ekki sagt að þeir geti myndað ríkisstjórn.

Þó að litið sé framhjá spurningunni um annan ríkisstjórnarkost fer ekki á milli mála að á Alþingi eru að skapast skarpari hugmyndafræðilegar átakalínar en verið hafa um nokkurn  tíma. Þær línur liggja á milli framsýni og íhaldssjónarmiða þegar kemur að stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.   Og þær liggja líka á milli ólíkrar hugmyndafræði um  jöfnuð og ójöfnuð á mörgum mikilvægustu verkefnasviðum stjórnmálanna. Þær félagslegu aðgerðir sem verkalýðsfélögin knúðu fram á dögunum breyta ekki þessari stöðu í grundvallar atriðum.

Næturumræðan um makrílinn er þó aðeins vísbending um möguleika á pólitískum breytingum. Framtíðin ein getur svo skorið úr um það hvort eða hvernig þingmenn hagnýta tækifærin sem eru að skapast til að koma upp nýrri stöðu á taflborði stjórnmálanna.